Harmonikkutónar á Raufarhöfn
JÚLÍ 2021
Ljósmyndari Guðni Þórðarson
GÞ-6511
Ævintýrablær var yfir sumrinu árið 1956 á Raufarhöfn á Langanesi. Sjórinn var svartur af síld við Langanes og einstök aflahrota fyrir síldarflotann sem sigldi alls staðar að af landinu til að moka síldinni upp. Þetta sumar þann 19. júlí var einn mesti veiðidagur í sögu íslenskra síldveiða þegar 80.000 mál af síld komu á land. Konurnar söltuðu í gríð og erg á Raufarhöfn þannig að tunnuflekkir mynduðust á síldarplönunum. Um allt þetta má lesa í dagblöðum landsins þessa sumarmánuði. Á staðnum var ónefndur fréttaritari dagblaðsins Tímans sem birti reglulega fréttir en þegar atgangurinn magnaðist dugði ekki minna en að senda blaðamann að sunnan á vettvang. Guðni Þórðarson mætti á staðinn með myndavélina sína. Myndir af bátum og síldarsöltun frá honum rötuðu á baksíðu Tímans og síðan skellti hann sér í túr á miðin með Fagrakletti GK-260 og skrifaði ljóðræna frásögn um mannskapinn, sjóferðina og veiðina.
Hálfri öld síðar ratar filmusafn Guðna til Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni og þá leyndust þar ýmis andartök sem höfðu ekki ratað á síður blaðsins. Þar er myndasyrpa frá Raufarhöfn sem sýnir þegar dekkhlaðnir bátar koma að landi, söltunarplönin iða af lífi, menn eru í óðaönn að gera netin klár fyrir næstu ferð og moka síldinni upp í bræðsluna. Sami atgangur, kraftur og lífsgleði speglast í myndum úr búðinni á staðnum, bankanum og verbúðinni. Þegar skyldumyndatökunni, sem var forsenda vinnuferða Guðna bæði til Raufarhafnar og annarra staða á landinu, sleppti þá stoppaði hann oft hjá krökkum sem urðu á vegi hans og tók myndir af þeim í leik eða á ferð. Þannig leynist meðal annars í Raufarhafnarsyrpunni þessi heillandi og látlausa mynd af tveimur strákum og hundi.
Þegar velja átti myndir á sýningu með myndum Guðna árið 2006 fangaði myndin af strákunum augað. Hvaða strákar skildu þetta vera? Það stóð ekki á svari þegar Jónas Friðrik Guðnason þjóðskáld og Raufarhafnarbúi sá myndina. Harmonikkuleikarinn væri Agnar Víðir Indriðason, síðar útgerðarmaður á Raufarhöfn, og áheyrandinn Kristján Sigfússon síðar á Þórshöfn. Og hann bætti við hundurinn væri trúlega Héppi heitinn í húsinu Sandgerði á Raufarhöfn.
Það er allt í senn myndbyggingin með þá þrjá staðsetta með millibili í forgrunni, bátaflotann á legu í bakgrunni og útdregin harmonikkan sem skapa myndinni sérstakan blæ. Angi af rómantík mitt í síldarævintýrinu.
Inga Lára Baldvinsdóttir