Nicoline Weywadt
JÚNÍ 2021
Mms-25562 |
Myndina tók danskur ferðamaður, Johan Holm-Hansen að nafni, á Djúpavogi haustið 1867 þegar Nicoline er 19 ára gömul. Hörður Geirsson skrifaði um bakgrunninn sem Johan Holm-Hansens notaði við mannamyndatökur sínar og ljósmyndun hans í Íslandsdvölinni í pistli um ljósmynd mánaðarins í júní 2019. Hörður leiðir líkur að því að við þetta tækifæri hafi áhugi Nicoline á ljósmyndun kviknað.
Faktor Weywadt sendi tvær dætur sínar til náms í Danmörku, ekki á húsmæðraskóla heldur í iðnnám. Árin 1871 – 1872 dvaldi Nicoline í Kaupmannahöfn og lærði ljósmyndun, fyrst íslenskra kvenna. Eftir námið sneri hún heim til Djúpavogs og starfaði við iðn sína auk þess sem hún vann um tíma í verslun Örum og Wulff. Nicoline var vakandi fyrir framþróun í ljósmyndatækni og sigldi til Kaupmannahafnar árið 1888 til þess að tileinka sér það nýjasta í greininni. Myndir hennar bera vott um þekkingu hennar á faginu, vönduð vinnubrögð og næmt auga fyrir myndbyggingu.
Faðir Nicoline lést árið 1883 og hélt hún eftir það heimili með móður sinni í nýreistu húsi fjölskyldunnar að Teigarhorni, þar sem hún starfrækti einnig ljósmyndastofu. Plötusafn hennar og ýmis áhöld til ljósmyndunar er varðveitt í Þjóðminjasafninu. Þessir munir eru margir hverjir til sýnis á grunnsýningu safnsins. Weywadt húsið að Teigarhorni er hluti húsasafns Þjóðminjasafnsins. Unnið er að viðhaldi á húsinu um þessar mundir.
Nicoline lést 20. febrúar 1921. Myndin af henni er varðveitt undir Mannamyndasafni Ljósmyndasafns Íslands. (Mms-25562). Þann 18. september nk. verður opnuð í Myndasal sýning á úrvali mannamynda úr þessari safnheild en auk ljósmynda geymir það m.a. málverk, teikningar, brjóstmyndir og steinþrykk af nafngreindum einstaklingum.
Jóhanna Bergmann
Heimildir:
Ofanskráð er byggt á grein eftir undirritaða í Múlaþingi, 25. hefti, 1998. Heimildir sóttar í Iðnsögu Austurlands, síðari hluta, eftir Smára Geirsson og sýningarskrá með ljósmyndasýningunni Myndasafn frá Teigarhorni sem Inga Lára Baldvinsdóttir ritaði 1982.