Í svart hvítu landslagi
Október 2014
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
ÞJ-Árn 598
Engin skráning liggur fyrir frá Þorsteini Jósepssyni á þessari mynd hans þannig að lítið er vitað um tilurð hennar eða aldur. Líklega kemur það ekki að sök enda myndefnið fremur tímalaust og sneytt ummerkjum manna. Myndin er tekin frá Klukkutindum eða mögulega frá suðvestur horni Skriðu en bæði fjöllin eru norðan Laugarvatns. Útsýnið er í vestur yfir Skefilsfjöll og Tindaskaga. Langidalur breiðir úr sér fyrir framan Skefilsfjöll en handan þeirra við rætur Tindaskaga liggur Þjófahraun. Í fjarska sjást Skálafell og Esja fjærst til vinstri, þá Ármannsfell og Botnsúlur og lengst til hægri glittir í kollinn á Hvalfelli.
Myndin er góður vitnisburður um frumkvæði og harðfylgni Þorsteins við myndatökur því hann er staddur utan alfaraleiðar göngumanna á þessum tímum. Á undirlendinu fyrir neðan hann eru fornar reiðleiðir sem liggja um Langadal yfir Klukkuskarð áleiðis til byggða. Þessar reiðleiðir eru afleggjarar af Eyfirðingavegi en um hann riðu menn af Norðurlandi suður á Alþingi. Landsvæðið er ekki auðvelt yfirferðar. Í úfnu Þjófahrauninu hefur margur ferðalangurinn villst af leið og fyrr á öldum voru tröll talin búa í fjöllunum.[1]
Hér dregur Þorsteinn fram það hrjóstruga í náttúrunni og gerir bergmyndun og grafísku landslaginu góð skil í mynd sem býr yfir mikilli dýpt. Hann setur stórt línuskorið berg í forgrunn sem markar línurnar fyrir landslagið í bakgrunni. Auga áhorfanda leitar frá miðju, er dregið áfram út allan myndflötinn og þræðir sig inn til fjallanna í fjarska. Þú ert ferðalangur sem átt fyrir höndum göngu um hrjóstrugt og eyðilegt land ekki ólíkt því að vera kominn í ævintýraveröld. Skýjabólstrarnir eru í fullkomnum hrynjanda við fjallgarðana á jörðu niðri. Hin fjölbreyttu blæbrigði gráu tónanna yfir í djúpan svartan lit njóta sín vel í þessari mynd og undirstrika gróðurleysið. Hvergi er von um grösug tún.
Búið var að ryðja brautina í landslagsljósmyndun á Íslandi þegar Þorsteinn hóf feril sinn á fyrri hluta 20. aldar. Ásamt fleirum var hann í framvarðarsveit við mótun á nýrri og persónulegri nálgun landslagsljósmyndara. Fyrir hans tíma var ljósmyndurum helst í mun að sýna þjóðinni landsvæði sem margir Íslendingar höfðu aldrei augum litið og jafnframt að kynna landið erlendis. Ljósmyndarar litu oft eingöngu á sig sem heimildarmenn.
Þorsteinn hafði sterkar skoðanir á hlutverki ljósmyndarinnar og tjáði sig í rituðu máli um ábyrgðina að sýna raunsætt landslag. Hann var m.a. mótfallinn sviðsettu landslagi þar sem gróður var ýktur. Þegar það komst í tísku að setja hvannarót eða annan gróður í forgrunn mynda gagnrýndi hann það sérstaklega. Hann sagði að með því að ýkja gróðursæld landsins væri verið að upphefja eitthvað sem væri ekki einkennandi fyrir íslenska náttúru. Hann var þó alls ekki á þeirri skoðun að ljósmyndari ætti að vera afstöðulaus eða hlutlaus í myndsýn sinni og sagði: „Það má ýkja hver, foss, jökul, sandauðn, hraun eða annað það sem er fyrst og fremst sérkennilegt fyrir landið okkar.“[2] Hans markmið var hvort tveggja að sýna hið „sanna“ Ísland en jafnframt að gæða ljósmyndina sál og hrífa áhorfandann.
Þessi mynd Þorsteins sýnir í raun horfið landslag því í dag marka jeppaslóðar þetta svæði milli hryggjanna og hægt er að aka um úfið hraunið.
Linda Ásdísardóttir, skrásetjari ljósmynda Þorsteins Jósepssonar í Árnessýslu.