„Alvarleg starir myndin mín...“
Janúar 2017
Auð bakhlið harðspjaldaljósmynda 19. aldar varð mörgum freisting til að skrifa á hana ýmiss konar athugasemdir. Þessi venja virðist vera alþjóðleg þó að henni hafi lítill gaumur verið gefinn í skrifum um harðspjaldamyndir.[1] Póstkort voru enn ekki orðin framleiðsluvara, en margir textanna voru áþekkir þeim sem síðar rötuðu á þau. Það gat einfaldlega verið tökuár myndarinnar ásamt nafni eða staðarheiti. Sá sem myndin var af gaf hana oft öðrum og skrifaði á bakhliðina kveðju til þess, sem myndin var ætluð. Þá gátu jafnvel ljóð flotið með. Á tímum þegar pappír var fágætur var ekki skrítið að hann væri nýttur til fulls. Auð síða kallaði á skrif. Samhliða jók árituð kveðja á minningargildi myndarinnar.
Siðurinn er jafn gamall því að menn hófu að taka ljósmyndir og setja á visit spjöld hér á landi. Dæmi þess er kveðja skrifuð 14. janúar 1867 af Kristjáni Eldjárn Þórarinssyni, skólapilti við Latínuskólann, aftan á mynd af honum til ónefnds skólabróður: „Þótt braut vora skilji/skipti nornir,/en fagran Fortúna/faðm þér bjóði/og leiði þig ástmey/ljósri mundu;/gleymdu ei alveg/Eldjárn gamla/ meðan þig gleður/ minning æsku.“[2]
Sumar athugasemdanna lúta að því hvernig fyrirsætunni finnist myndin af sér hafa lukkast. Tryggvi Gunnarsson alþingismaður skrifar þannig aftan á mynd af sjálfum sér um 1865: „Grínmynd tekin á Hallgilsstöðum.“[3] Ekki liggur nú ljóst fyrir þeim sem skoðar myndina í hverju grínið fólst. Var það kannski uppstillingin? Á aðra bakhlið skrifar móðir árið 1916 í orðastað barns: „Jeg er ársgömul á þessari mynd er jeg ekki heldur myndarleg? Nú er jeg ekki orðin nema skinn og bein eftir mislingana og lungnabólgu.“[4] Þetta dæmi sýnir að þessi siður hélst í meira en hálfa öld. Hefur líkast til fylgt tíma visit-mynda en þær voru við lýði hérlendis fram undir 1930.
Oft er það sjálfsmatið sem litar sýnina. Á mynd af fjórum vesturförum frá árinu 1876 hefur Jón Bjarnason prestur í Kanada skrifað: „Tekin í regni og þoku og því erum við allir eins og útilegumenn. Þú þekkir hin andlitin.“[5] Ekki er þó allt skrifað í hálfkæringi eða gleði. Júlíana Jónsdóttir skáldkona úr Akureyjum hefur fengið Frederik Löve ljósmyndara til taka mynd af sér á áttunda áratug 19. aldar, líklega í Stykkishólmi. Myndin er ekki merkt ljósmyndaranum, en baktjaldið segir til um hver hefur tekið hana. Aftan á myndina hefur Júlíana sjálf skrifað þessar tvær vísur sem lýsingu á mynd sinni:
Alvarleg starir myndin mín
sem minnist á hverfult alt
úr augunum varmi eingin skín
ömurlegt hart og kalt
og þessi fölva og bitra brún
blásin er köldum storm
og kringum vángan er rauna rún,
rituð með gremju form.[6]
Inga Lára Baldvinsdóttir
[1] Eina umfjöllun um þetta efni sem tekist hefur að hafa uppá er í bók Oliver Mathews The Album of Carte-de-Visite and Cabinet Portrait Photographs 1854-1914 sem kom út í London 1974.
[2] Sjá Þjms. Mms. 3355.
[3] Sjá Þjms. TrG. 131-37.
[4] Sjá Þjms. Mms. 20518.
[5] Sjá Þjms. Mms. 17177.
[6] Sjá Þjms. Mms. 16539.