Minning úr kartöflugarði
September 2016
Það hefur kólnað í veðri en septembersólin skín. Moldarlykt fyllir vitin þegar fingurnir krafla í jarðveginn og tína kartöflurnar upp í fötu. Það er fallegt hljóðið sem heyrist þegar kartöflurnar falla til botns og sameinast ein af annarri; fyrst er hljómurinn holur og tómlegur en smátt og smátt þéttist hann eftir því sem fatan fyllist. Stundum leik ég mér að því að láta eina kartöflu detta ofan í fötuna í einu eða þá að ég læt margar falla samtímis: kartöflufoss. Í moldinni liggur eftir kartöflumóðirin.
Það eru blendnar tilfinningar sem koma upp þegar ég hugsa um kartöflumóðurina; að vori var hún lögð í jörðu, tilbúin til að fjölga sér og færa okkur björg í bú. Að hausti er hún orðin lin, gömul og þreytt, og ég forðast að kreista hana, finnst það óvirðing gagnvart henni að láta innvolsið vella út. Leyfi henni að hvíla áfram í moldinni, hún hefur lokið mikilvægu hlutverki sínu. Ég lít upp, rétt hjá mér eru amma og afi. Þau keppast við að koma kartöflum í fötur og poka. Handtökin eru hröð og örugg en um leið mjúk.
Stúlkan á myndinni er stödd í kartöflugarði, trúlega upp úr 1950. Hún lyftir kartöflugrasinu og heldur á kartöflu í annarri hendi. Það er hreyfing í myndinni, rétt eins og hún ætli að rétta kartöfluna í átt til ljósmyndarans sem staðsetur myndavélina neðarlega og horfir upp til stúlkunnar. Frá þessu sjónarhorni sést hvernig rætur kartöflugrassins liggja og kartöflurnar bíða þess að verða tíndar upp úr moldinni. Í baksýn sjáum við konu sem stingur upp kartöflugras. Af klæðnaði hennar að dæma eru kjöraðstæður til að taka upp kartöflur þennan dag, þurrt og hlýtt.
Ljósmyndin er tekin af Guðna Þórðarsyni en hann sérhæfði sig í því sem kalla má ljósmyndablaðamennsku (e. photojournalism) þar sem frásögn og ljósmynd mynda eina heild. Guðni var einn sá fyrsti sem lagði stund á slíka blaðamennsku hér á landi en hann nam hugmyndafræðina í blaðamannaskóla í New York, kenndan við tímaritin Life og Time.1 Tímabilið frá fjórða áratugnum og fram að þeim sjötta er oft talið hafa verið blómaskeið ljósmyndablaðamennsku. Með tilkomu nýrrar tækni eins og 35 mm vélinni frá Leica árið 1925 varð blaðamaðurinn frjálsari og hreyfanlegri og gat tekið fleiri skot af sama atburði og jafnvel flutt fréttir og frásagnir nær eingöngu með myndum þar sem texti var oft í lágmarki eða óþarfur. Áherslan er því á ljósmyndina og þá sýn sem hún gefur lesandanum á viðfangsefnið. Mynd segir meira en þúsund orð og getur kallað fram minningar og hughrif á einu augnabliki. Á ferli sínum lagði Guðni áherslu á að lýsa lífinu í landinu, jafnt hversdeginum sem og stórviðburðum og tímamótum.2 Myndin af stúlkunni í kartöflugarðinum er mjög í anda þess stíls sem Guðni tileinkaði sér, að fanga lífið í landinu á skemmtilegan og áhugaverðan hátt.
Sigurlaug Jóna Hannesdóttir
1 Guðrún Harðardóttir, Ljósmyndun á Íslandi 1950-1970. (Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafns III), Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 1999, bls. 64.
2 Guðrún Harðardóttir, Ljósmyndun á Íslandi 1950-1970. (Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafns III), Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 1999, bls. 64-66.