Ólík sýn á jólin
Ágúst 2016
Framleiðsla einfaldra jólakorta á póstkortaformi jókst mikið á árum seinni heimstyjaldarinnar. Þar réði mestu stóraukin kaupgeta almennings vegna aukinnar vinnu en líka fjöldi hermanna í landinu, sem vildi senda kveðjur heim. Nokkrir teiknarar spreyttu sig á því að teikna myndir sérstaklega fyrir slík jólakort bæði Íslendingar, eins og auglýsingateiknararnir Ágústa Pétursdóttir og Stefán Jónsson, en líka útlendingar sem sest höfðu að á Íslandi, eins og þau Barbara Moray Williams Árnason og Kurt Zier. Barbara, sem var ensk, og Kurt, sem var þýskur, voru bæði menntaðir myndlistarmenn.
Kort þeirra allra eru prentuð í fáum litum, oftast bara tveimur, til að spara prentkostnað. Fróðlegt er að bera saman myndefnið sem þau kjósa að skreyta kortin með. Ákveðinn samnefnari er í nálgun þeirra Barböru og Kurt, sem reyna að endurspegla gamla samfélagið með myndum af eins konar jólakvöldvöku og fólki að heilsast. Með gests augum leita þau uppi sérkenni í þjóðmenningu Íslendinga. Konur eru á íslenskum búning og karlarnir hafa yfir sér þjóðlegan brag. Þó að kort þeirra Ágústu og Stefáns séu sitt hvorrar gerðar endurspegla þau sýn á nútímann. Kort Ágústu sýna einfaldar myndir dregnar í fáum dráttum af ungum konum við ýmsa iðju, í rigningu úti á götu, á skíðum eða að setja blóm í vasa í glugga. Jólakort Stefáns skera sig úr því að þau voru hugsuð sérstaklega fyrir enska og ameríska hermenn. Nafn Íslands er yfirleitt prentað framan á kortin til að viðtakandi sjái hvaðan kortið berst. Myndirnar hafa yfir sér brag skopmynda, hermaður á íslenskum hesti er að elta uppi ísbjörn eða víkingaskip á siglingu með áletrun á segli SHOW ME THE WAY TO GO HOME. Rétt eins og hermaðurinn á hestinum var Ísland á fleygiferð inn í nútímann.
Inga Lára Baldvinsdóttir