Ólympíuleikar í Berlín 1936: Wannsee
Júní 2014
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Þorsteinn Jósepsson var einn af um fimmtíu Íslendingum sem fóru á Ólympíuleikana í Berlín árið 1936. Hann tók ljósmyndir og skrifaði greinar frá leikunum í Morgunblaðið og vann „þriðju einstaklingsverðlaun í ljósmyndakeppni um beztu ljósmyndir leikmanna frá Olympíuleikunum.“1 Það er hvorki vitað hversu margar myndir Þorsteinn sendi í keppnina né hvaða mynd eða myndir þetta voru sem hann var verðlaunaður fyrir. Það er aftur á móti athyglisvert að Þorsteinn lagði mesta áherslu á að ná myndum af frægum íþróttamönnum og að hann sýndi Hitler, Göbbels og Göring lítinn áhuga – en í frásögn af leikunum segir Þorsteinn að hefði hann „þá vitað að þessir þýzku hernaðarsinnar myndu fáum árum síðar koma af stað ægilegasta blóðbaði veraldarsögunnar myndi [hann] sennilega hafa elzt meira við þá með myndavélina [sína] en raun varð á.“2 Ljósmyndin sem hér er birt sýnir mannlíf á meðan á leikunum stendur, það er að segja baðstrandarlíf við Wannsee í sumarhitanum í Berlín og fjölda fólks gera marga ólíka hluti, í allskyns stellingum, líkt og í málverki eftir Breughel. Þessi mikli fjölbreytileiki mannlífsins er það sem gerir ljósmynd Þorsteins áhugaverða sem og allir hlutirnir sem þar koma fram eða þeir „agnarsmáu neistar tilviljunarinnar“ sem birtast á myndinni og ljósmyndarinn ræður svo að segja engu um; til dæmis stingur mann fáninn með nasistamerkinu vinstra megin á myndinni, vegna þeirrar vitundar um hvernig nasistahreyfingin og stríðsrekstur þeirra þýddi eitthvað allt annað en baðstrandarlíf. Það hvernig ljósmyndin gleypti allt í sig án þess að gera upp á milli hluta var undrunarefni sem frumherjar ljósmyndunarinnar, þar á meðal William Henry Fox Talbot, glímdu við: Áður en ljósmyndin kom til sögunnar voru myndir einfaldlega gerðar, í stað þess að vera nú teknar.3 Það er eðliseiginleiki ljósmyndarinnar að hún er vélrænn atburður sem getur markast af allskyns tilviljunum, og vegna alls þess sem hún kemst ekki hjá því að fanga er ljósmyndin sem sýnishorn af heiminum endalaust forðabúr fyrir vangaveltur og rannsóknir á veruleikanum, manninum og sögunni, á staðnum „þar sem framtíðin hefur komið sér fyrir í löngu liðnu augnabliki og talar þaðan til okkar.“4
Myndskeið - Steinar örn atlason
Steinar Örn Atlason