Pétursey sjósett í Vík
FEBRÚAR 2020
Ljósmyndari: Ólafur Jónsson / Þorlákur Sverrisson
ÓJ-157
Frægasta áraskip Suðurlands, áttæringurinn Pétursey bíður sjósetningar í flæðarmálinu í Víkurfjöru í Vík í Mýrdal árið 1916.
Á þessari mynd má sjá sextán sjómenn tilbúna að halda á haf út á opnum áttæringi. Staðfastir standa þeir í briminu meðan aldan skellur á bátnum og bíða færis til að koma honum á haf út. Sjómennirnir gefa sér augnablik til að stilla sér upp fyrir myndina áður en haldið er út. Formaður er Jón Gíslason bóndi á Norður-Götum og við framstafn stendur Haraldur Einarsson. Ekki eru upplýsingar um nöfn annarra áhafnarmeðlima.
Sjómennirnir horfa til ljósmyndarans, með árar á lofti eins og hermenn á leið til orrustu. Herklæðin eru dæmigerðir sjóstakkar saumaðir úr sauðskinni, gulbrúnir að lit, og belgvettlingar úr ull. Til að búa til ein klæði þurfti 6-8 sauðskinn í buxur, jakka og sjóhatt sem olía var borin á til að vatnsverja flíkurnar. Fastar venjur fylgdu allri sjósókn. Þegar í fjöruna var komið var reglan að signa sig áður en farið var í sjóstakkana. Síðan kallaði formaðurinn: „Hafið rétt“. Þá fór hver maður á sinn stað um borð og þeir sterkustu voru aftast í skipinu til að ýta því út, því erfitt var að komast um borð eftir að skipið sigldi af stað. Alltaf var sagt „Setjum nær, í Jesú nafni“ á leiðinni út.
Í baksýn á ljósmyndinni eru Reynisdrangar sem í dag eru eitt þekktasta kennileiti Íslands. Löngu áður en þorpsmyndun hófst í Vík um aldamótin 1900 hafði verið róið þaðan á fiskimiðin á vetrar- og vorvertíðum. Sjósókn var erfið frá Vík vegna hafnleysu og erfiðra lendingarskilyrða. Bátar sem þaðan réru voru svokallaðir sandbátar og voru sérstaklega hannaðir til að hægt væri að sjósetja þá í grunnu vatni. Þeir voru mjög þungir og stundum erfiðir til sjós sökum þess hvað kjölurinn risti grunnt. Áttæringurinn Pétursey var smíðaður haustið 1855 í Pétursey og var hann í notkun allt til ársins 1946 og var því mikið happafley. Á tímabilinu 1860-1880 var Pétursey að mestu róið frá Jökulsá á Sólheimasandi og seinna róið til fiskjar frá Vík í Mýrdal og einnig nýttur við uppskipun.
Í dag er áttæringinn Pétursey að finna á Skógasafni og er skipið kynnt sem höfuðprýði safnsins.
Myndin er úr safni Ólafs Jónsonar (1889-1951). Í safni Ólafs eru glerplötur frá öðrum ljósmyndurum m.a. Sigfúsi Eymundssyni, Eggert Guðmundssyni og Þorláki Sverrissyni. Börn Þorláks töldu þessa mynd vera eftir föður sinn. Þorlákur (1875-1943) bjó og vann við verslun í Vík í Mýrdal auk þess sem hann fékkst við ljósmyndun. Hann tók meðal annars einstakar myndir af Kötlugosinu 1918 sem voru gefnar Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.
Hver sem ljósmyndarinn var þá tókst honum að fanga einstakt augnablik þegar Pétursey er sjósett; mynd sem gerir okkur kleift að skilja þær erfiðu aðstæður sem sjómenn þurftu að glíma við fyrr á öldum.
Andrea Þormar
Heimildir:
Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi, 1845-1945, (2001)
Þórður Tómasson, Sjósókn og sjávarfang (1993)