Skáldkonungur Vestur-Húnavatnssýslu
Ágúst 2014
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Hér birtist ljósmynd af öldruðum manni og andlitið er rúnum rist. Þetta er þrekvaxinn karl og svipurinn dálítið kíminn og gráglettnislegur. Maðurinn er í svörtum jakka og með trefil um hálsinn. Að líkindum situr maðurinn sunnanundir timburklæddum veggnum á viðbyggingunni sem hann hróflaði upp við varðskúrinn við hliðið á sauðfjárveikivarnargirðingunni hjá Stóra Ósi í Miðfirði. Þótt annað mætti ráða af myndinni var þessi hetjulegi kappi, líkt og fjölmargir slíkir, víst bæði skelfilega myrkfælinn og logandi hræddur við mýs.
Ljósmyndina tók Þorsteinn Jósepsson, (1907-1967) blaðamaður og ljósmyndari, og trúlega er myndin tekin árið 1956. Þá um sumarið fór Þorsteinn norður til að taka myndir í árbók Ferðafélags Íslands um Vestur Húnavatnssýslu en sú bók var gefin út árið 1958.
Maðurinn á myndinni er Valdimar K. (Kamillus) Benónýsson, (1884-1968) bóndi á Ægisíðu á Vatnsnesi, oft nefndur Valdi Kam. fyrir norðan. Valdimar fæddist og ólst upp að Kambshól í Víðidal en dvaldist ungur austur í Vatnsdal. Vorið 1918 hóf hann ásamt eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, búskap að Gafli inn á Víðidalstunguheiði og bjuggu þau þar í sex ár, síðan í tvíbýli í Vatnshól í fimm ár og í Selási í sex ár. Frá Selási fluttust þau að Ægisíðu á Vatnsnesi og eignuðust þá jörð árið 1937 og var Valdimar oft kenndur við þann bæ. Hann hafði aldrei stórt bú en hirti vel um búpeninginn. Hann var afreksmaður til verka og annálaður sláttumaður. Það sem halda mun minningu hans á lofti um langan tíma er þó ekki búskaparamstrið heldur skáldskapurinn, orðsnilldin og rímleiknin.
Valdimar var víst ekki mjög sýnt um að halda skáldskap sínum saman en kunni óhemju af vísum og löngum kvæðabálkum eftir sjálfan sig og aðra og var hafsjór af fróðleik um allt er laut að bragfræði. Víða hafa vísur hans og kvæði þó birst í bókum og blöðum og eru margar landskunnar og enn hafðar á hraðbergi og kveðnar fyrir norðan. Á veraldarvefnum má finna fjölmargar vísur Valdimars og í bók sinni Horfnum góðhestum birtir Ásgeir Jónsson, frá Gottorp, tvö kvæða hans, „Blesamál" og annað ort í tilefni 50 ára afmælis Ásgeirs árið 1926. Í bókinni krýnir höfundurinn Valdimar „skáldkonung Vestur-Húnavatnssýslu" og er skáldið sannarlega vel að þeim heiðri kominn enda vandfundnir frumlegri og orðhagari rímsnillingar.
Úr Blesamálum:
Þá er skaflaskeifa úr afli dregin, föstum lófatökum teymd tegld við hófinn, felld og seymd.
Bjargs- frá látrum bergmálshlátrar óma,
jór er alinn æstur stökk unnarsala- þökin klökk.
Úr afmæliskvæði til Ásgeirs:
Geiri sest á gjarðamar,
gjöfum hresstur Bakkusar,
sýnist flestum saman þar
sveinn og hestur fornaldar.
Árið 1953 fluttust þau hjónin til Reykjavíkur. Í allmörg sumur dvaldist Valdimar þó áfram fyrir norðan og sinnti vörslu við hliðið á sauðfjárveikivarnargirðingunni hjá Stóra-Ósi, við Norðurbraut í Miðfirði. Þangað í skúrræfilinn lögðu margir leið sína til að heyra „skáldkonunginn" fara með vísur og kvæði og ræða skáldskaparmál við glaðsinna og margfróðan öldunginn.
Þórður Skúlason frá Hvammstanga, skrásetjari mynda Þorsteins Jósepssonar úr Húnavatnssýslum.