Skíðaskálinn í Jósefsdal
Nóvember 2015
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Ljósmyndari Guðmundur A. Erlendsson (GAE3-xxx)
Árið 1936 byggðu meðlimir í Skíðadeild Ármanns skála í Jósefsdal. Þar með hófst skíðaiðkunn Ármenninga í Bláfjöllum. Ekki vildi betur til en að sex árum síðar varð skálinn eldi að bráð. Strax var hafist handa við að smíða nýjan skála, sem fauk áður en hann varð fullbúinn. Tveimur árum síðar eða í desember 1944 var nýr skáli tilbúinn og það er sá skáli sem myndin sýnir. Aldrei virtust menn missa móðinn, það var alltaf haldið áfram þannig að skíðaparadísin í Jósefsdal gæti lifað.
Afi minn og hans systkini stunduðu skíði af kappi og afi fór að sækja Jósefsdal aðeins 12 ára gamall. Hann fór með systkinum sínum með rútu Guðmundar Jónassonar hvenær sem færi gafst. Þau systkinin fóru með nesti til helgarinnar í bakpokum, fornfálegan skíðabúnað og fatnað sem var ólíkur nútíma hlífðarfatnaði. Rútan stoppaði á Sandskeiðinu og þaðan gekk skíðafólkið um 5 kílómetra leið að skálanum. Oft var farið í slæmu veðri en aldrei urðu nein slys á fólki. Skíðafólkið fór allar helgar og í öllum fríum að vetri til í Jósefsdal jafnvel þótt aðstaðan væri í raun ófullkomin. Skálinn hélt veðri og vindum en þar var bágborin hreinlætisaðstaða og ljósið var háð díslevél sem stundum bilaði. Kynnt var upp með kolum í kabyssum.
Það var auðvitað ýmislegt gert annað en að renna sér á skíðum í Jósefsdal. Á kvöldin voru haldnar kvöldvökur með dansi og söng, hljóðfæraleik og annarri skemmtidagskrá. Hinn kunni jazzpíanisti Guðmundur Ingólfsson lék á píanó á kvöldvökum þegar hann var á svæðinu en hann var félagi í skíðadeildinni. Þá voru sungin ljóð Rannveigar Þorsteinsdóttur, Ármannsljóð, sem fjölluðu meðal annars um fólk sem lenti í hrakningum á leið sinni í Jósefsdal.
Þröngt var á þingi í skálanum í Jósefsdal en sofið var í kojum sem voru einskonar flatsængur á tveimur hæðum. Það var meðal annars vegna sístækkandi hóps skíðaiðkenda að nokkrir félagar afa tóku sig saman og byggðu lítinn skála enn hærra í fjallinu. Þessi skáli var kallaður Himnaríki. Stutt frá var svo skæruliðaskálinn en einn af bræðrum afa og hans félagar byggðu þann skála sem einnig var aðeins ætlaður fámennum hópi og hér fyrir neðan má sjá mynd af honum. Samgangur var á milli Himnaríkisbúa og Skæruliða enda stutt vegalengd á milli skálanna. Nokkrir þessara félaga úr Jósefdal, Himnaríki og Skæruliðaskálanum eru enn virkir skíðamenn og hittast reglulega í skála Skíðadeildar Ármanns í Sólskinsbrekku, Bláfjöllum.
Ólöf Breiðfjörð, kynningarstjóri Þjóðminjasafnsins
Heimildir:
Munnleg heimild: Kristinn Eyjólfsson, viðtal 19. október 2015.
Heimasíða Ármenninga: http://armenningar.is/armenningar/?D10cID=page&id=141&SportID=46 (Síðast skoðað 22. október 2015)