Sumri fagnað
APRÍL 2020
Ljósmynd: Þórður Skúlason Lpr-11.2.2020
Myndin sýnir skrúðgöngu á sumardaginn fyrsta á Hvammstanga um miðbik sjöunda áratugs tuttugustu aldar. Í fararbroddi er traktor með heimatilbúinn vagn í eftirdragi, fremur hrörlegur að sjá. Dráttarvélin, sem er af tegundinni Massey Harris, má einnig muna sinn fífil fegri. Við stýrið er maður í kuldaúlpu, Björn Þ. Sigurðsson, kallaður Bangsi. Fremst á vagninum standa nokkrar sumarstúlkur á skrautbúningum með blóm í hári og kona með hatt á höfði, Sumardísin, sömuleiðis á búningi. Nokkru aftar situr maður í gervi Veturs konungs, íklæddur hvítum kyrtli með bláum bryddingum, með hvítt hár og alskegg. Á höfði ber hann hvíta kórónu með bláum röndum. Tveir drengir eru honum sitt til hvorrar handar, á bláum skikkjum með hvítum bryddingum og háa, hvíta hatta á höfði með dúsk og stjörnu. Ungir fánaberar með íslenska þjóðfánann ganga framarlega við sitthvora hlið vagnsins, báðir á búningum í tilefni dagsins. Tvö prúðbúin börn hlaupa á undan. Á eftir vagninum kemur skrúðgangan, sést þar hópur barna og unglinga á sparifötum og tveir fullorðnir. Í forgrunni sér á Landrover jeppa, sem voru töluvert dýr ökutæki á þeim tíma og ekki á allra færi. Andrúmsloftið á myndinni er að mörgu leyti lýsandi fyrir íslensk þorp þess tíma með holóttum malarvegi og misvel viðhöldnum byggingum. Samt eru allir glaðir og fullir eftirvæntingar.
Skrúðgangan er á móts við hrörlegt steinhús en fjær sér á reisulegt og vel við haldið einbýlishús og turninn á kirkju staðarins. Kofaræskni sem er komið að falli, sennilega útihús, ber við traktorinn en þar til hægri er lítið hús á tveimur hæðum. Dráttarvélin og skrúðgangan eru á ferð um Húnabraut en venjulega var lagt af stað frá félagsheimilinu klukkan tvö og tekinn hringur um þorpið. Misjafnt var hvaða hringur var farinn en alltaf fram hjá sjúkrahúsinu og aftur að félagsheimilinu. Þar afhenti Vetur konungur, Sumardísinni veldissprota sinn og fram fór skipulögð dagskrá. Á eftir var kvikmyndasýning fyrir börnin og síðan fór hver til síns heima. Sumardagurinn fyrsti var ein mesta hátíð ársins á Hvammstanga. Fyrst og fremst var þetta hátíð fyrir yngstu börnin sem voru full tilhlökkunar að fá að taka þátt.
Þessi siður að fagna sumarkomunni með framangreindum hætti var tekinn upp á Hvammstanga árið 1957 og er enn í fullu gildi. Hann hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás, en í upphafi riðu Vetur konungur og Sumardísin á hestum fyrir skrúðgöngunni en síðar var þeim ásamt fylgdarliði ekið á vagni eins og sjá má á myndinni. Dagurinn var notaður til fjáröflunar fyrir spítalagarð og hélst svo fram um 1965. Flestir eða allir búningar voru heimatilbúnir og munu þeir upphaflegu enn vera í notkun.
Sumardagurinn fyrsti er svo kölluð „hræranleg hátíð“ og ber alltaf upp á fimmtudag 19.- 25. apríl ár hvert. Haldið hefur verið upp á þennan dag frá alda öðli með tilhaldi í mat, helgihaldi á sveitaheimilum (húslestrum), messum og sumargjöfum, sem eru miklu eldri en jólagjafir. Hátíðahöld í þéttbýli hófust seint á 19. öld og frá þriðja áratug 20. aldar var sumardagurinn fyrsti helgaður börnum með tilheyrandi skemmtunum og skrúðgöngum. Hann var gerður að opinberum barnadegi árið 1921 og var fyrst haldið upp á hann sem slíkan í Reykjavík sama ár. Sumardagurinn fyrsti varð lögbundinn frídagur árið 1971.
Ágúst Ó. Georgsson
Heimildir
Árni Björnsson, Saga daganna (Reykjavík: Mál og menning 1993), bls. 31-46.
Eyrún Ingadóttir, „Sumardagurinn fyrsti á Hvammstanga“. Húni 2001 , bls. 66-70.
Tölvupóstur. Þórður Skúlason frá Hvammstanga, til höfundar 11. febrúar 2020.