Sundlaugarnar í Laugardal
NÓVEMBER 2020
Ljósmyndari: Þorsteinn Jósepsson
ÞJ_Rvk-154
Sundlaugamenning Íslendinga er sterk og má reikna með að hvergi á byggðu bóli séu jafn margar almenningsútilaugar miðað við hina frægu höfðatölu. Í Laugardal í Reykjavík reis fyrsta steinsteypta sundlaug landsins á árunum 1907-1908, en í hana var veitt heitu vatni úr Þvottalaugunum og köldu vatni úr Gvendarbrunnum. Koma sundlaugarinnar gerði það kleift að halda úti sundkennslu allt árið um kring.1 Eins og sést á myndinni hér að ofan þá stóð laugin u.þ.b. á horninu þar sem Laugalækur og Sundlaugavegur mætast í dag. Hún var svo í notkun alveg fram til 1. júní árið 1968, en þann dag opnaði ný Laugardalslaug sunnan megin við Sundlaugaveg.2 Aðeins þremur vikum síðar hófst vinna við að rífa gömlu laugarnar.3
Gamla Laugardalslaugin var mikið notuð af Reykvíkingum og gestum borgarinnar og einn ágætur sundlaugagestur skrifaði grein sem birtist í Vísi þann 27. maí 1943.4 Þar mærir höfundur greinarinnar laugarnar:
„Hvern dag er sólar nýtur, eru laugarnar miðdepill heilla herskara yngri og eldri, sem leita þessarar einstæðu paradísar í ríki höfuðstaðarins. […] Sundlaugarnar í Reykjavík, þar sem sjóðandi vatnið sprettur uppúr iðrum jarðar og snilli tækninnar hefir tekizt að brugga hæfilega heitt baðvatn og smíða baðker sem heill hópur manna og kvenna getur komizt fyrir í. […] Og margir Reykvíkingar kunna vel að meta guðs gjafir og snilli sinna beztu sona. Mannfjöldinn losar sig í skyndi við hinar ryk- og sandorpnu flíkur og eftir fá augnablik er kerið fullt - svo fullt, að vart verður skotið upp höfði.“
Greinarhöfundur heldur svo áfram: „... og það fólk er til í höfuðstaðnum, sem leyfir sér að heimta „meira ljós“- enn fullkomnari sundlaugar og betri aðbúnað fyrir baðgesti.“ Hann bætir þá við tillögum að endurbætum, s.s. stærri og dýpri laugar, fleiri búningsklefa, betra aðgengi á bílum, hjólum og gangandi og að bæta við starfsfólki á vöktum svo hægt sé að hafa laugarnar opnar frá kl. 8:00 til 20:00 alla daga um vor og sumar.
Það má með sanni segja að allar þessar óskir sundlaugagestsins hafi ræst og að aðgengi íbúa borgarinnar að sundlaugum sé í dag með allra besta móti. Þeim mun meiri er söknuður sundunnenda eftir laugunum þegar þær þurfa að loka af óviðráðanlegum aðstæðum, t.d. vegna tæknibilana eða heimsfaraldurs.
Þórir Ingvarsson
1 https://www.mbl.is/greinasafn/grein/325803/
2 Morgunblaðið, 31.05.1968, 55. árg., 112. tbl., s. 30 https://timarit.is/page/1394256
3 Vísir, 22.06.1968, 33. árg., 135. tbl., s. 10: https://timarit.is/page/2397040
4 Vísir, 27.05.1943, 33. árg., 118. tbl., s. 2: https://timarit.is/page/1153981