„Það er bara til einn Elvis“
APRÍL 2017
Ljósmyndari Haraldur Þorvarðarson. HÞ-132.
Unglingaherbergi á Akranesi árið 1960 bar þess merki hver var þá helsta stjarna unglinga í vestræna heiminum. Það var sjálfur Elvis Presley, fyrsta stóra rokkstjarnan, oft kallaður konungur rokksins. Honum hafði skotið upp á stjörnuhimininn árið 1956 og hann heillaði marga, þó sérstaklega ungar stúlkur, upp úr skónum. Söngröddin en ekki síst takturinn og hvernig hann hristi sig og skók sló nýjan og ferskan tón í tónlistarheiminum.
Tilkoma unglinga sem sérstaks þjóðfélagshóps er 20. aldar fyrirbæri og hafði meðal annars í för með sér að unglingar sköpuðu sér eigin menningarheim. Þeir hlustuðu á sína eigin tónlist og klæddu sig með öðrum hætti en þeir fullorðnu. Sérstök tímarit voru gefin út fyrir þennan aldurshóp og sömuleiðis voru gerðar kvikmyndir sem höfðuðu sérstaklega til hans. Hér unnu saman þörf unglinga til að marka sér sérstöðu og máttur markaðsaflanna til að spila með ýmsum hætti á nýjungagirni unglinga og þörf þeirra til að falla inn í sinn hóp.
Það gefst ekki oft innsýn í herbergi unglinga, fullorðnir eiga ekki alltaf greiðan aðgang þar inn og alls ekki til að taka myndir af þeirri veröld sem unglingarnir eru að skapa sér í mótun á sinni eigin sjálfsmynd. Það gerir sýnina í unglingaherbergið á Akranesi áhugaverðari. Þar blasir við að myndir af Elvis úr blöðum og tímaritum hafa verið klipptar út og límdar upp á veggina. Sambærileg dæmi af upplímdum úrklippum af kvikmyndaleikurum og öðrum stórstjörnum á veggjum þekkjast á ljósmyndum frá vinnustöðum bæði til lands og sjávar.[1]
Herbergiseigandinn, Þorgerður Haraldsdóttir, og vinkona hennar, Emilía Ólafsdóttir, hafa stillt sér upp framan við fjölbreyttar myndir af stjörnunni. Ljósmyndin er ein sex mynda af þeim stöllum framan við vegginn. Aðspurð um myndina segist Þorgerður hafa verið og vera mikill Elvis aðdáandi og hún þoli ekki Elvis eftirhermur. Eins og hún segir réttilega: „Það er bara til einn Elvis.“[2]
Inga Lára Baldvinsdóttir
[1] Sigurður Guðmundsson tók ljósmynd af konum að störfum í efnagerð í Reykjavík um 1950 þar sem myndir af kvikmyndastjörnum úr blöðum prýða veggi (SÍS- 2079)og Guðni Þórðarson tók ljósmynd í lúkarnum um borð í Sigrúnu AK 71 á árunum 1950-52 þar sem myndir af kvikmyndastjörnum og konum á sundbolum eru á veggjum (Lpr-1998-7).
[2] Tölvupóstur frá Þorgerði Haraldsdóttur 1. febrúar 2017.