Ásfjall
Á sýningunni mátti sjá ljósmyndir sem Pétur Thomsen tók á og við Ásfjall í Hafnarfirði á árunum 2008-2011. Samhliða sýningunni kom út vandað rit með ljósmyndum Péturs, en bæði bókin og sýningin hlutu einróma lof gagnrýnenda og gesta. Pétur naut styrks frá Þjóðminjasafni Íslands við vinnu verkefnisins.
Á sýningunni Ásfjall má sjá ljósmyndir Pétur Thomsen sem hann hefur myndað undanfarin þrjú ár við Ásfjall í Hafnarfirði. Myndirnar sýna nýtt hverfi í uppbyggingu og samspil manns og náttúru.
Ásfjall í Hafnarfirði er fyrir margt merkilegt. Þar er meðal annars að finna eina hæstu byggð á höfuðborgarsvæðinu; gróin hverfi; fólkvang; friðlýst svæði; frístundabyggð; skógrækt og ný hverfi í uppbyggingu. Það er einmitt þetta síðastnefnda sem ég ætla að einbeita mér að í verkefninu. [...] Það sem gerir þetta svæði áhugavert til ljósmyndunar er að það er lýsandi dæmi um stöðuna í íslensku samfélagi í dag og þá miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár. Nýtt hverfi er að vinna sér stað í náttúrunni í næsta nágrenni við friðlýstan fólkvang.
Svona lýsti Pétur Thomsen ljósmyndari verkefni sínu Ásfjall í upphafi þess vorið 2008. Hann hefur síðan farið um hverfið og myndað húsin, fólkið og umhverfið. Þegar hugmyndin kviknaði snérist hún fyrst og fremst um að ljósmynda hverfi í byggingu og áhrifin sem byggingarframkvæmdirnar hafa á allt umhverfið. Atburðir í samfélaginu breyttu hins vegar framkvæmdunum í eitthvað annað og meira. Hálfbyggð og mannlaus hverfi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins urðu tákn óraunhæfra áforma. Í stað bjartsýni urðu vonbrigðin myndefni ljósmyndarans.
Pétur beinir sjónum sínum einnig að náttúrunni; fólkvanginum sem hverfið rís við og hvernig byggðin skríður sífellt lengra inn á heiðina. Ljósmyndir hans eru í senn ádeila á meðferð okkar á landinu og skrásetning framkvæmda. Sjónarhorn Péturs sýnir samhengi byggingarlistar, skipulags og náttúru, en það eru allt þættir sem móta umgjörð samfélagsins og hafa áhrif á það.