Eldri sýningar

Auga gestsins

  • 5.5.2007 - 25.8.2007, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýningin Auga gestsins samanstóð af myndum frá Íslandsferðum norska útgerðarmannsins Hans Wiingaard Friis. Norðmenn stunduðu veiðar og útgerð á Íslandi um langt skeið og höfðu hér ítök undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar. Einn norsku útgerðarmannanna var Hans Wiingaard Friis frá bænum Álasundi í Noregi. Hann stundaði þorskveiðar frá Hafnarfirði árin 1906 til 1909 en var auk þess áhugaljósmyndari og myndaði nokkuð á ferðalögum sínum um landið.

Friis tók margar myndir af Hafnarfirði en auk þess heimsótti hann aðra útgerðarstaði þar sem norsk umsvif voru mikil, til dæmis Siglufjörð, Seyðisfjörð og Reyðarfjörð. Myndasyrpa hans frá Íslandi er um margt merkileg en hann sver sig í ætt við aðra áhugamenn í persónulegri og frjálslegri nálgun við myndatökurnar.

Sýningarhöfundur var Inga Lára Baldvinsdóttir, fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu, og var Auga gestsins unnin í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri.

Tilurð sýningarinnar má rekja til kannana sem Hörður Geirsson, safnvörður ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri, gerði árin 2002 og 2004 í því skyni að athuga tengsl Íslands og Noregs á sviði ljósmynda. Hann skoðaði meðal annars ýmis söfn í suðurhluta Noregs og sendi spurningaskrá um hvað væri til af myndum frá Íslandi til 50 safna víðs vegar um landið. Fram komu um 1500 myndir frá í 15 norskum söfnum og meðal þeirra voru myndir úr safni Hans Wiingaard Friis á Ålesunds museum í Álasundi sem enginn hér á landi hafði vitað um. Glerplötur Friis lágu lengi óskoðaðar í trékössum en svo vildi til þær höfðu nýlega verið skannaðar inn þegar spurningaskráin barst.

Í safni Friis eru meðal annars myndir frá ýmsum borgum Evrópu og um 170 myndir frá Íslandi. Margar þeirra er nú til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands.

Þess má geta að myndirnar komu ekki fram þegar Þjóðminjasafnið stóð fyrir sambærilegri könnun árið 1981. Nú er í bígerð að senda aftur spurningalista til sömu safna í Noregi árið 2009. Unnið er að skráningu mynda í söfnunum og þegar fram líða stundir gætu komið í ljós fleiri myndir frá síldar- og hvalastarfsemi Norðmanna á Íslandi.