Eldri sýningar

Fuglarnir, fjörðurinn og landið

Ljósmyndir Björns Björnssonar

  • 3.6.2017 - 12.9.2017, 10:00 - 17:00, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
  • BB-fuglamyndir_1959

Björn Björnsson (1889 – 1977) var áhugaljósmyndari sem sérhæfði sig að mestu leyti í fuglaljósmyndun. Hann vann að ljósmyndun á Austfjörðum meðfram verslunarstörfum, lengst af á Norðfirði. Á síðari árum sérhæfði Björn sig í náttúrulífsljósmyndun og ferðaðist um landið í þeim tilgangi. Myndir hans af fuglum birtust víða, meðal annars í Náttúrufræðingnum og í British Birds.  

Björn fæddist að Þverdal, Saurbæjarhreppi í Dalasýslu árið 1889 en fram undir tvítugt var hann búsettur víða á Vesturlandi og svo í Reykjavík. Árið 1911 réði hann sig til vinnu á Seyðisfirði og í kjölfarið urðu Austfirðir heimkynni hans, lengst af Norðfjörður. Árið 1945 sneri Björn baki við verslunarrekstri, fluttist til Reykjavíkur, þá 56 ára. Nú gat hann einbeitt sér að hugðarefnum sínum, ferðalögum um landið og ljósmyndun.  

Fuglamyndir Björns hafa skapað honum sérstöðu innan íslenskrar ljósmyndunar. Björn fór í margar fuglarannsóknarferðir, ýmist einn eða í för með fuglafræðingum. Áhugamál Björns tók stakkaskiptum árið 1939 þegar hann eignaðist myndavél sem hentaði sérstaklega vel til fuglaljósmyndunar. Björn var þekktur fyrir að spara ekkert til þess að sinna þessari ástríðu sinni, hvort sem um var að ræða ferðamáta, ljósmyndunarbúnað eða tíma.

Ljósmynda- og filmusafn Björns telur tugi þúsunda mynda, auk annars efnis tengdu ljósmyndun og er varðveitt hjá þremur stofnunum, í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni, í Mynda- og skjalasafni  Norðfjarðar og hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Myndir Björns Björnssonar verða sýndar í Myndasal Þjóðminjasafnsins. Samhliða sýningunni gefur Þjóðminjasafn Íslands út samnefnt rit um ljósmyndir Björns Björnssonar. 

Sýningarhöfundur: Kristín Halla Baldvinsdóttir, sérfræðingur á Ljósmyndasafni Íslands.