Eldri sýningar

Fornleifarannsóknir og hin nýja Íslandssaga. Níu fornleifarannsóknir Kristnihátíðarsjóðs á Þjóðminjasafni Íslands.

  • 5.4.2005 - 31.7.2005, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Á rannsóknarsýningunni Fornleifarannsóknir og hin nýja Íslandssaga var níu fornleifarannsóknum Kristnihátíðarsjóðs gerð skil. Á sýningunni voru kynntar þær fornleifarannsóknir sem stóðu yfir árið xxxx með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs og þar mátti sjá úrval gripa sem fundist hafa við uppgrefti. Kristnihátíðarsjóður var stofnaður árið 2000 til að minnast þess að 1000 ár voru liðin frá því kristni var lögtekin á Íslandi og sú mikla gróska sem verið hefur í fornleifarannsóknum á undanförnum árum er ekki síst honum að þakka.

Eins og til stóð hefur sjóðurinn eflt fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og þá ekki síst með því að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar. Sú mikla gróska sem verið hefur í fornleifarannsóknum á undanförnum árum er ekki síst að þakka Kristnihátíðarsjóði.

Á Þingvöllum hafa fundist stór mannvirki frá upphafi þinghalds og áður óþekktar búðartóftir. Þekking hefur aukist á biskupssetrunum tveimur, Hólum og Skálholti, bæði á þéttbýli og húsakosti þessara höfuðstaða Norðurlands og Suðurlands. Í Skálholti hafa m.a. fundist íveruhús og skólahús en á Hólum m.a. prenthúsið þar sem fyrsta íslenska prentsmiðjan var starfrækt. Náttúruleg höfn hins forna verslunarstaðar Hóla í Kolkuósi hefur rannsökuð og einnig annar forn verslunarstaður, Gásar í Eyjafirði, þar sem grafin var upp stór trékirkja og búðir. Í Keldudal í Hegranesi í Skagafirði fannst óvænt bæði kirkjugarður úr frumkristni og kumlateigur úr heiðni. Í Reykholti fer einnig fram rannsókn á kirkjugarði og kirkju en þar var ein mikilvægasta höfuðkirkja á Íslandi. Eitt rannsóknarverkefnið sem Kristnihátíðarsjóður styrkir felst í að afla gagna um staðsetningu allra þekktra kumla á Íslandi, greina hvað lá að baki staðarvali þeirra og reyna þannig að leita uppi áður ókunn kumlstæði. Þá hafa tvö forn klaustur verið grafin upp, fyrsta nunnuklaustrið á Kirkjubæ sem stofnað var 1186, og munkaklaustrið á Skriðu í Fljótsdal sem starfrækt var á tímabilinu 1493-1554.

Á sýningunni í rannsóknarými Þjóðminjasafnsins gaf m.a. að líta tvær höfuðkúpur sem fundust í Skriðuklaustri. Önnur er af holgóma unglingi en sjaldgæft var að holgóma einstaklingar lifðu bernskuárin af án sérstakrar umönnunar. Hin er af manneskju sem hefur verið með beinvörtur á höku og hefur því einnig þurft aðstoðar. Af þessu má ráða að eitt af hlutverkum klaustursins hafi verið að líkna sjúkum enda fundust líka ýmis læknisáhöld: skæri, skurðarhnífar og bíldur með útskornu skafti (blóðtökuverkfæri).

Á rannsóknasýningunni mátti einnig sjá fagurlega myndskreyttar flísar úr kakalóninum sem fannst í prenthúsinu á Hólum í Hjaltadal þar sem Guðbrandsbiblía var prentuð og þar eru skreytt bókarspennsli (þ.e. krækjur og lykkja til að halda bók saman) úr Reykholti sem eru eins og bókarspennsli á Guðbrandsbiblíu þeirri sem til sýnis er á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.

Með þessum dæmum er fátt eitt nefnt. Fjöldi merkra gripa hefur fundist við alla þessa uppgrefti og margvíslegar nýjar upplýsingar hafa komið fram. Rannsóknirnar hafa aukið miklu við þá þekkingu sem við áður höfðum úr ritheimildum, staðfest það sem vitað var, bætt við það og stundum flett ofan af mannvirkjum, stöðum eða starfsemi sem engar ritheimildir greina frá. Fornleifarannsóknir eru þannig smám saman að bæta við og breyta Íslandssögunni frá því sem var meðan einungis ritheimildum var til að dreifa.Vænta má frekari uppgötvana og funda árið 2006 því fornleifarannsóknir njóta áfram styrks frá Kristnihátíðarsjóði. En sumarið 2005 var í síðasta sinn grafið með fjárstuðningi sjóðsins.

Á sýningunni voru fornleifarannsóknirnar kynntar og gafst þar einstakt tækifæri til að sjá gripi sem komið hafa úr jörðinni síðustu fjögur ár og skoða þá í samhengi við hina glæsilegu grunnsýningu safnsins Þjóð verður til.