Hátíð í bæ
Á jólasýningunni Hátíð í bæ voru til sýnis ljósmyndir tvíburabræðranna Ingimundar og Kristjáns Magnússona á Veggnum. Á sýningunni var sitthvað sem komið gat börnum í jólaskap, og þar gátu þeir fullorðnu án efa þekkt aftur hina sönnu jólastemmingu bernsku sinnar. Myndirnar fönguðu anda jólahalds sjöunda áratugarins. Þarna mátti sjá jólin í skólanum, litlu jólin, jólaböll stéttarfélaga, jólastemningu heima og einnig fólk við brennusöfnun en hún var mikilvægur þáttur í jólafríum þessa tíma.
Ingimundur og Kristján (fæddir 1931) voru báðir iðnmenntaðir, sá fyrrnefndi í trésmíði en sá síðarnefndi í húsgagnabólstrun. Síðar fengust þeir við ljósmyndun og luku prófi í þeirri grein. Þeir mynduðu bæði hversdagslega viðburði og það sem óvenjulegt var á hverjum tíma. Ingimundur myndaði fyrir Vísi og Kristján fyrir Tímann og Vikuna og einnig tóku þeir myndir fyrir almenna viðskiptavini.
Tímabilið 1978 til 1998 ráku bræðurnir saman ljósmyndastofu sem sinnti margþættum verkefnum og Kristján varð smám saman einn helsti tískuljósmyndari landsins. Við andlát hans árið 2003 var Þjóðminjasafni Íslands afhent myndasafn bræðranna til varðveislu.
Í framhaldi af þessari sýningu var þann 12. janúar opnuð önnur sýning með myndum Kristjáns og Ingimundar af táningum sjöunda áratugarins, bítli og sveiflu, Með tyggjó og túberað hár.
Sýningarhöfundur var Ágústa Kristófersdóttir.