Eldri sýningar

Hví ekki Afríka? Ljósmyndir Dominique Darbois og Franskt vor

  • 17.3.2007 - 29.4.2007, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Hví ekki Afríka? var sýning á ljósmyndum Dominique Darbois frá Afríku og afrískum skúlptúrum. Sýningin var haldin í tengslum við frönsku menningarhátíðina Pourquoi pas? á Íslandi. Ljósmyndarinn Dominique Darbois fæddist í París árið 1925 en ferðaðist um Afríku á tímabilinu 1950 til 1980 og myndaði afrískar meðsystur sínar í meira en tíu löndum sunnan Sahara. Konurnar," segir Pierre Amrouche sýningarstjóri, "eru stoðirnar sem heimsálfan hvílir á." Á sínum tíma leyfðu hinar afrísku konur frönsku konunni að taka af sér myndir sem bæru lífi þeirra vitni og nú horfa þær til okkar af myndunum, eftirtektarverðar, sterkar og hugrakkar.

Þarna eru eiginkonur, mæður, dansarar, konur við vinnu á ökrunum, þjakaðar og þreyttar konur og glæsilegar konur í hátíðarbúningum.

Þegar franski ljósmyndarinn hóf að ferðast um Afríku á sjötta áratugnum var heimsálfan ennþá nýlenda Frakklands en lýsti síðan yfir sjálfstæði. Dominique hélt áfram að taka myndir af hinni frjálsu Afríku og í myndum sínum nálgast hún konurnar með hlýju og látlausri eftirtekt. Í gegnum myndir Dominique opnast lifandi sýn inn í framandi menningarheim en ekki verður staðar numið þar.

Með sýningunni í Þjóðminjasafninu voru kynntir ólíkir þættir afrískrar listsköpunar, allt frá Sahara og Malí til Angóla, með viðkomu á Fílabeinsströndinni, Nígeríu, Gabon og Lýðræðislega lýðveldinu Kongó. Því voru líka sýndir sjö afrískir skúlptúrar og ljósmyndir af 30 afrískum munum, grímum og styttum.

Þetta dýpkaði sýnina á Afríku en listmunirnir voru allt að þúsund ára gamlir og einkenndust af mikilli fjölbreytni. Margir eru smíðaðir með helgihald í huga og sennilega enginn í fagurfræðilegum tilgangi einum. "Afrísk list," segir Pierre Amrouche, "er nátengd lífinu frá fæðingu til dauða. Ekkert í henni lætur mann ósnortinn, heldur stuðar hún áhorfandann og knýr hann til þess að taka afstöðu."

Fornleifafundir benda til að upphaf mannkynsins hafi verið í Afríku og það gefur, að mati Pierre, tilefni til að endurmeta afríska list sem um árþúsundir hefur búið um sig í arfberum okkar og menningu. "Þessi list, sem endurholdgar forfeðurna, brýst einnig fram í formi þeirra mynda sem sameiginlegir forfeður okkar allra á jörðinni gera sér, jafnt í Frakklandi sem á Íslandi."

Í tengslum við sýninguna var haldið málþing í Þjóðminjasafninu 18. mars klukkan 14-16.