Eldri sýningar

Íslendingar í Riccione - ljósmyndir úr fórum Manfroni bræðra

  • 12.3.2005 - 5.6.2005, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Íslendingar í Riccione var sýning ljósmynda sem teknar voru á veitingastaðnum La Traviata á sumarleyfisstaðnum Riccione á Ítalíu á níunda áratug 20. aldar. 

Veitingastaðurinn La Traviata var miðstöð íslenskra ferðamanna og þar voru ýmsar samkomur haldnar með tilheyrandi skemmtiatriðum, sem byggðu á þátttöku gestanna og annars eiganda staðarins. Ólafur Gíslason fararstjóri lýsir því svo: „La Traviata var ekkert venjulegt veitingahús, heldur allt í senn, matsölustaður, bar, kabarett og leikhús, og leikararnir voru ekki bara hinir óviðjafnanlegu bræður Nerio og Maurizio Manfroni, heldur allir gestir og starfsfólk staðarins, ungir sem gamlir."

Nerio Manfroni hélt til haga ljósmyndum sem urðu afgangs hjá götuljósmyndurum sem heimsóttu staðinn á hverju kvöldi og gaf Þjóðminjasafni Íslands þann hluta myndasafnsins sem tengist Íslendingum. Safnið er ómetanleg heimild um íslenska þjóðhætti og menningu á síðari hluta 20. aldar, þegar ferðalög Íslendinga til framandi landa urðu í fyrsta sinn á færi allra og tilteknir veitingastaðir á sólarströndu urðu fastur punktur í sumarfríi landsmanna.