Eldri sýningar

Með gullband um sig miðja. Sýning á íslenskum búningum og búningaskarti

  • 7.8.2006 - 19.11.2006, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Í Rannsóknarými Þjóðminjasafnsins á 2. hæð voru til sýnis íslenskir búningar og búningaskart 7. ágúst til 19. nóvember 2006. Þar gat að líta úrval búningasilfurs frá lokum 17. aldar til okkar tíma: ennisspangir, koffur, sprotabelti, lyklasylgjur, húfu- og sjalprjóna, skúfhólka, millur, reimanálar og samfelluhnappa.

Sumir gripirnir eru í eigu safnsins en aðrir voru fengnir að láni fyrir þessa sýningu. Þarna mátti einnig sjá átta búninga með tilheyrandi skarti: faldbúning, peysuföt, upphlut, tvo telpnabúninga og drengjabúning, kirtilbúning og skautbúning. Vandað handbragð og glæsileiki einkenna gripina og sýna þeir svo ekki verður um villst að dverghagir menn og konur hafa stundað silfursmíði hér á landi. Sýningin var gerð í samvinnu við Þjóðbúningaráð í tilefni Norrænnar þjóðbúningaráðstefnu sem haldin var í Reykjavík dagana 7. - 10. ágúst. Hönnuður sýningarinnar er Guðrún Gunnarsdóttir.

Sýningin er styrkt af Samtökum iðnaðarins.