Eldri sýningar

Send í sveit

  • 5.5.2007 - 24.8.2007, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Hvernig var að fara í sveit? Sýningin Send í sveit á Veggnum vakti vafalaust upp bernskuminningar úr sveitinni hjá mörgum landsmönnum. Í sumarbyrjun 2007 rifjaði Þjóðminjasafnið upp þennan tíma með sýningu ljósmynda af börnum við sveitastörf, af kveðjustundum og fagnaðarfundum á BSÍ.

Á meðan enn voru sterk tengsl milli íbúa á mölinni og í sveitum landsins var alsiða að börn í þéttbýli væru send í sveit, ýmist til ættingja eða vandalausra yfir sumartímann. Þá voru flestir bæjarbúar fyrsta kynslóð á mölinni og áttu skyldfólk í sveitinni en einnig komst fólk í samband við sveitaheimili gegnum ráðningarþjónustur eða smáauglýsingar.

Á sýningunni Send í sveit mátti sjá myndir úr söfnum Ingimundar Magnússonar, Guðna Þórðarsonar, Gísla Gestssonar, Þorvaldar Ágústssonar og Ara Kárasonar. Einnig fékk Þjóðminjasafnið nokkra einstaklinga til að deila reynslu sinni úr sveitinni með sýningargestum.

Sýningarhöfundur var Ágústa Kristófersdóttir.