Eldri sýningar

Skyndisýning: Öxar við ána

  • 20.4.2023 - 17.6.2023, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu
  • Lpr-520

Opnar á sumardaginn fyrsta: Skyndisýning á sögufrægasta kornetti Íslandssögunnar, kornetti sem var í eigu Helga Helgasonar, höfundar Öxar við ána.

Árið 2022 barst Þjóðminjasafninu kornett úr eigu Helga Helgasonar (1848-1922) frumkvöðuls í lúðrablæstri á Íslandi. Helgi nam trompetleik í Kaupmannahöfn og snéri heim að námi loknu með hljóðfæri til að stofna hornaflokk, þar á meðal kornettið sem hann notaði sjálfur og var í eigu hans alla tíð.

Helgi var einnig tónskáld og samdi mörg þekkt sönglög. Einna þekktast er Öxar við ána við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Lagið var frumflutt við Öxarárfoss á Þingvallafundinum árið 1885 og lék Helgi á kornettið við það tækifæri. Nú geta gestir Þjóðminjasafnsins barið kornettið augum. 

Sýningin opnar á sumardaginn fyrsta. 

Sama dag mun Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar gleðja gesti með lúðrablæstri milli klukkan 14:00 og 16:00, en þá verður sumarkomu fagnað á safninu. 

Sumardaginn fyrsta ber upp á Barnamenningarhátíð. Frítt er á viðburði Barnamenningarhátíðar og hér má skoða dagskrána

Kornett

Hornleikarar við Öxarárfoss á Þingvallafundinum árið 1885. Fremstur stendur Helgi Helgason.

Ljósmyndari: Sigfús Eymundsson