Eldri sýningar

Skotthúfan mín

Ást á arfleiðinni

  • 29.5.2009 - 31.8.2009, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Föstudaginn 29. maí kl. 14 verður opnuð á Torgi Þjóðminjasafnsins sýning helguð skotthúfum að fornu og nýju.

Þar má sjá eldri skotthúfur úr eigu safnsins ásamt ýmsum safngripum, en einnig nýjar skotthúfur hannaðar af Ingibjörgu Guðjónsdóttur og Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur. Skotthúfur þeirra byggja á gamalli hefð en eru umfram allt nútímalegar. Húfurnar eru til sölu í safnbúð Þjóðminjasafnsins.
Um hönnun sína segir Ingibjörg Guðjónsdóttir: Skotthúfan mín, varð til við innblástur af hinni upprunalegu skotthúfu Hólapilta og prjónuðu kvenskotthúfunni. Hún er handprjónuð, þæfð og meðhöndluð af ást, til að veita sem besta vörn gegn umhleypingasömu íslensku veðri.

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir lýsir sinni skotthúfu á þennan hátt: Skotthúfan mín er mér bráðnauðsynleg. Hún er falleg í laginu, djúp og hlý, kvenleg og skartast vel. Síðast en ekki síst prýða hólkarnir húfuna svo vel bæði úr silfri og beini.
Hönnuður sýningarinnar er Þórunn Elísabet Sveinsdóttir en sýningin er opin á opnunartíma safnsins frá kl. 10-17 alla daga.