Eldri sýningar

Svart á hvítu - Prentlistin og upplýsingabyltingin

  • 20.5.2009 - 15.11.2009, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Á sýningunni voru prentstafir og mót úr fyrstu íslensku prentsmiðjunum á Hólum, í Skálholti og í Hrappsey ásamt bókum sem prentaðar voru með þessum mótum.

Í upplýsingasamfélagi samtímans er erfitt að hugsa sér heiminn án hins prentaða orðs. Margir hafa tæki og tól á heimilum sínum sem gera þeim kleift að koma hugsunum sínum á prent. Upplýsingar blasa hvarvetna við okkur, hvort sem er á prenti eða á tölvuskjá. Jafnvel er kvartað yfir því að upplýsingaflóðið sé of mikið.

Á sýningunni Svart á hvítu getur að líta gripi frá því á fyrstu dögum prentsins á Íslandi, prentmót og bækur frá því á 16. öld og fram á miðja 19. öld. Gripirnir gefa innsýn í þá tíma þegar bækur voru settar og prentaðar án sjálfvirkni og hver bók var einstakur dýrgripur. Sýnd eru prentmót sem Þjóðminjasafninu bárust árið 1868 og eiga uppruna sinn í fyrstu íslensku prentsmiðjunum. Sum mótin eru sýnd með bókum þar sem þau koma fyrir, en önnur eru sýnd með afþrykkum.

Elstu prentmótin sem varðveist hafa eru úr biblíunni sem Guðbrandur Þorláksson lét prenta árið 1584, en ein þeirra 27 tréskurðarmynda sem í henni voru er nú á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.