Á tímum torfbæja: híbýlahættir og efnismenning í íslenska torfbænum frá 1850
Hvernig skyldi hafa verið að búa í torfbæ um miðja 20. öld? Þetta er meðal þess sem dr. Anna Lísa Rúnarsdóttir mannfræðingur hefur velt fyrir sér. Hún rannsakaði lífið í torfbæjunum frá 1850 til búsetuloka fram yfir 1950. Á rannsóknarsýningunni í Forsalnum á 2. hæð eru niðurstöður hennar kynntar og varpa myndir og textar ásamt völdum gripum úr safnkostinum ljósi á þær miklu breytingar sem urðu á þessu síðasta tímaskeiði torfbæjanna.
Í nágrannalöndunum var farið að byggja úr timbri og steini mörgum öldum fyrr en íslenski torfbærinn þróaðist á einstæðan hátt alveg fram á 20. öld. Nokkrir torfbæir eru varðveittir á landinu og flestir þeirra í vörslu Þjóðminjasafns Íslands sem annast viðhald ásamt Húsafriðunarnefnd ríkisins. Þessir bæir eru merkilegir minnisvarðar um byggingargerð sem vart á sinn líka í veröldinni. Þeir endurspegla lokastigið í þúsund ára þróun.
Rannsókn Önnu Lísu er ekki síst áhugaverð fyrir það að hún beinist að sjálfu fólkinu sem bjó í bæjunum á síðasta tímabilinu. Daglegt líf fólks í bæjunum, gestagangur og áhrif iðnbyltingarinnar vöktu áhuga hennar. Ótrúlega stutt virðist síðan ný byggingarefni leystu hin gömlu af hólmi og tók Anna Lísa meðal annars viðtöl við fjölda fólks sem man eftir að hafa átt heima í torfbæjum. Hún vann að verkefninu meðan hún gegndi rannsóknarstöðu dr. Kristjáns Eldjárns og var opnun sýningarinnar liður í hátíðardagskrá sem Þjóðminjasafnið efndi til á 90 ára afmæli hans þann 6. desember 2006. Við það tilefni flutti Anna Lísa fyrirlestur um rannsókn sína og skýrsla hennar kemur út á næstunni í ritröðinni Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands.
Þann 30. janúar klukkan var Anna Lísa auk þess með leiðsögn um sýninguna og var það sjöunda sérfræðileiðsögn Þjóðminjasafnsins í röðinni Ausið úr viskubrunnum.
Anna Lísa starfaði sem sérfræðingur í byggingarsögu á rannsókna- og varðveislusviði Þjóðminjasafnsins árið 2006-7 og er verkefnisstjóri varðveislu Núpsstaðar.