Eldri sýningar

Aðventa á Fjöllum

  • 21.4.2012 - 28.10.2012, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Ljósmyndir Sigurjóns Péturssonar sækja innblástur sinn í bók Gunnars Gunnarssonar Aðventu um ævintýri Fjalla-Bensa.

Myndirnar á sýningunni eru afrakstur níu vetrarferða veturinn 2010-2011 um sögusvið Aðventu á Mývatnsöræfum, en það markast af Mývatni í vestri, Dettifossi í norðri, Jökulsá á Fjöllum í austri og Grafarlöndum í suðri. Ljósmyndir Sigurjóns hafa allar tilvísun í hina ódauðlegu skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem fyrst kom út á þýsku árið 1936. Sigurjón valdi hundrað og tuttugu setningar og setningabrot úr sögunni. Að því loknu samdi hann tökuáætlun þar sem myndefnið var valið út frá textunum þannig að úr varð heild með vísun í söguna og hélt síðan á fjöll til myndatöku. Hverri mynd fylgir því tilvitnun úr Aðventu. Skáldsagan er þannig til hliðsjónar og innblásturs. Vinnulagið minnir nokkuð á aðferð Gunnars löngum við skrif smásagna með tilvísun í íslenskar þjóðsögur og sagnir.

Aðventa er sagan um íslenska smalann, hinn þrekmikla sveitamann sem leggur líf sitt að veði við að bjarga eftirlegukindum úr klóm öræfavetrar meðan aðrir undibúa komu jólahátíðarinnar. Boðskapur Aðventu um þrautseigju og þolgæði Benedikts og förunauta hans, hundsins Leó og sauðsins Eitils, svo og heimspekilegar hugleiðingar söguhetjunnar um lífið, tilveruna, stöðu sína og drauma, eiga heilmikið erindi við Íslendinga í dag. List Gunnars Gunnarssonar í frásögn og stíl nær óvíða hærra en í þessari sögu sem er rituð af djúpum skilningi og ást á efninu.

Ljósmyndirnar á sýningunni fanga þá öræfakyrrð og glímu við náttúruöflin sem Fjöllin hafa boðið ferðalöngum um aldir og er hver ljósmynd studd tilvintun í texta Gunnars.

Sigurjón Pétursson er áhugaljósmyndari og hefur ásamt eiginkonu sinni Þóru Hrönn Njálsdóttur, sem einnig er áhugaljósmyndari, ljósmyndað vítt og breitt um Ísland, som og víða um heim, s.s. í Grænlandi, Alaska, Bandaríkjum Norður Ameríku, Kína, víða um Evrópur, Líbanon og Namibíu.