Eldri sýningar

Átján álagablettir

  • 15.1.2005 - 27.2.2005, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Ljósmyndasýningin Átján álagablettir sem sett var upp á Veggnum snemma árs 2005 var tileinkuð átján barna föður í álfheimum og öðrum forvitnum Íslendingum, þessa heims og annars.„Átján vóru synir mínir í álfheimum..."

Sýningin varpar samtímaljósi á ævaforna þjóðtrú Íslendinga. Fátt hefur staðist jafn vel tímans tönn og trú Íslendinga á helgi álagablettanna sem finna má í hverri sveit og skipta hundruðum í landinu öllu. Enn þann dag í dag njóta staðir þessir friðhelgi og til eru bæði gamlar og nýjar sögur af óhöppum og slysförum sem tengjast brotum á bannhelginni.

Myndirnar voru teknar á árabilinu 1998 - 2003 og hafa nokkrar þeirra birst í bókinni Landið, fólkið og þjóðtrúin sem út kom árið 2001.