design.is
Í Bogasal Þjóðminjasafnsins var opnuð sýningin design.is. Sýningin samanstóð af verkum um 20 íslenskra hönnuða sem staðsett voru í litlum tjöldum, hulduhólum, vítt og breitt um safnið. Sýningarstjórar voru Hrafnkell Birgisson og Sólveig Sveinbjörnsdóttir.
Í sýningarskrá komast þau svo að orði:
Fyrir þessa sýningu völdum við hóp ólíkra íslenskra hönnuða til að hanna hlut út frá sameiginlegu þema. Þetta var tilraun til að sameina fremur sundurlausan hóp með mismunandi bakgrunn, hugmyndafræði og starfsreynslu. Hugmyndin var að nota gömul íslensk minni og þjóðsagnir sem útgangspunkt í leit að séríslenskum einkennum. Hönnuðirnir voru beðnir um að hugleiða bakgrunn íslenskra þjóðsagna um samskipti huldufólks og mannfólks og beina athygli sinni að þeim gjöfum sem huldufólk launaði ýmsa greiðasemi.
Þessar gjafir voru voru jafnan sjaldgæfir hlutir, glæddir óvenjulegum kostum. Stundum voru þetta undurfagrir gripir, svo sem klæðnaður eða skart, eða um var að ræða sérstaklega endingargóða nytjahluti. Sumir hlutirnir færðu þiggjendum gæfu, ofurmátt eða bjuggu yfir lækningarmætti. Einnig fylgdi ógæfa sumum hlutum ef rangt var með farið. Hvernig hlutir voru þetta? Með hvaða boðskap? Hvaða hugmyndir og óskir endurspegluðu þeir í lífsbaráttunni og örbirgðinni fyrr á öldum? Hvaða hluti myndi huldufólk gefa mannfólkinu í dag?