Eldri sýningar

Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi

  • 8.8.2013 - 25.11.2013, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu
  • Fögnum fjölbreytileikanum

Á sýningunni tjá þrettán einstaklingar skoðanir sínar og tilfinningar. Þau eru á ýmsum aldri og koma úr ýmsum áttum en öll hafa þau komið við sögu hinsegin fólks á Íslandi með einum eða öðrum hætti. 

Úrvalið ber tíðarandanum skýr merki – það fólk sem lagði baráttunni lið þegar hún var hörðust tók einkum til máls á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar, og frá þeim tíma eru flestar þær tilvitnanir sem hér birtast. Þar er brugðið upp brotum úr lífi og baráttu hinsegin fólks á Íslandi á liðinni tíð. Á sýningunni má lesa orð sem eitt sinn voru látin falla á ýmsum vettvangi, orð um það að glíma við eigin tilfinningar og horfast í augu við þær, orð til að leggja mannréttindum lið. Ólíkar raddir – en þó einnar ættar – mætast á lítilli sýningu þar sem einnig er brugðið er upp ljósmyndum af því fólki sem tekur til máls.

Fögnum fjölbreytileikanum

Sýningin var sett upp í Þjóðminjasafni Íslands í tengslum við Hinsegin daga 2013 og gerð í samvinnu við Samtökin 78.  Textahöfundur er Þorvaldur Kristinsson.Í tengslum við sýninguna stendur Þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins fyrir rannsókn í þeim tilgangi að safna upplýsingum um samkynhneigð á Íslandi. Byrjað er að senda út spurningaskrár en þær eru einnig aðgengilegar á heimasíðu Þjóðminjasafnsins.