Eldri sýningar

Eldur í Kaupinhafn

  • 1.1.2005 - 31.12.2005, Hornið - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Eldur í Kaupinhafn - 300 ára minning Jóns Ólafssonar úr Grunnavík var rannsóknarsýning sem sett var upp síðsumars árið 2005. Sýningin var samvinnuverkefni Þjóðminjasafnsins og Góðvina Grunnavíkur-Jóns og fjallaði um fræðimanninn Jón Ólafsson (1705-1779), ævi hans og störf.

Sýningunni var ætlað að vekja athygli á eldhuganum Jóni Ólafssyni, ótrúlega fjölbreyttu og viðamiklu ævistarfi hans og mikilvægu framlagi hans til menningarsögu Íslands. Í tengslum við opnun sýningarinnar kom lýsing Jóns út á bók í umsjón Sigurgeirs Steingrímssonar: Relatio af Kaupinhafnarbrunanum sem skeði í október 1728.

Jón Ólafsson samdi fjölda ritsmíða um allt milli himins og jarðar, svo sem málfræði, orðskýringar, fornkvæðaskýringar, kennslukver í íslensku, rúnafræði, náttúrufræði, fiskafræði, steinafræði, skáldskaparfræði og margt fleira. Þegar bruninn varð í Kaupmannahöfn árið 1728 tók Jón þátt í að forða hinu mikla handritasafni Árna Magnússonar frá eldinum. Jón samdi síðar lýsingu á þessum örlagaríka atburði og er hún ein merkasta samtímaheimild sem um brunann er varðveitt.

Aðrir dagskrárliðir í tengslum við 300 ára minningu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík voru: Fluttur var útvarpsþáttur um Jón Ólafsson á Rás 1 sunnudaginn 14. ágúst í umsjón Péturs Gunnarssonar sem nefndist Fjarri hundagelti heimsins. Laugardaginn 20. ágúst var dagskrá á Menningarnótt í Þjóðminjasafni Íslands þar sem lesið verður úr verkum Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember var haldið málþing um fræðimanninn Jón Ólafsson úr Grunnavík í Þjóðminjasafni Íslands.