Eldri sýningar

Flug(a) - milli náttúru og menningar

  • 14.5.2006 - 11.6.2006, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýningin Flug(a) - milli náttúru og menningar, samanstendur af ljósmyndum eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Á ljósmyndunum birtist samband mannsins við náttúruna í sambandi hans við dýrin. Heimili gæludýra innan borgarmarkanna eru í brennidepli. Bryndís og Mark fengu rjúpnaskyttur til að skjóta einu haglaskoti hver á kort af miðborg Reykjavíkur. Þar sem gæludýr voru í húsunum sem urðu fyrir skoti voru heimilin ljósmynduð. Listamennirnir unnu líka með nemendum Austurbæjarskóla undir stjórn Guðlaugs Valgarðssonar kennara og má sjá afrakstur þess samstarfs á Torginu hjá Kaffitár.

Flugan er samfélagslegt myndlistarverkefni þar sem unnið er með samband borgarbúa við náttúruna með því að skoða tengsl þeirra við dýr. Verkefnið er í beinu framhaldi af öðrum verkefnum Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson en þau hafa nýlokið við stórt verkefni þar sem þau kortlögðu, ljósmynduðu og söfnuðu sögulegum upplýsingum um uppstoppaða ísbirni í Bretlandseyjum.

Flugan einbeitti sér að miðborg Reykjavíkur þar sem Bryndís og Mark kortlögðu gæludýr á ákveðnu svæði með aðstoð frá fjórum rjúpnaskyttum. Í raun er kortið með haglaskotunum líka sérstakt myndlistarverk. Þau Bryndís og Mark fengu síðan aðgang að þeim heimilum í úrtakinu sem halda gæludýr og ljósmynduðu umhverfi gæludýra innan heimilis eigenda þeirra. Þessi umhverfi eru misjöfn eftir því um hvaða dýr er að ræða en oftar en ekki þarf maður að velta því fyrir sér hvar þessi tiltekni staður dýrsins sé á myndinni.

Verkefnið átti sér langan aðdraganda og var m.a. unnið í samvinnu við Austurbæjarskóla undir stjórn Guðlaugs Valgarðssonar kennara. Hópur nemenda innan skólans vann listaverk af gæludýrum frá þeirra eigin heimili, vina eða vandamanna. Ennfremur skrifuðu nemendur stutta ritgerð um uppruna viðkomandi dýrs og hugmyndir þeirra um hugsanleg afturhvörf þess til náttúrunnar.

Ljósmyndir Marks og Bryndísar af umhverfi gæludýra ásamt verkum nemenda Austurbæjarskóla svo og úrtaksverkið með rjúpnaskyttunum var hluti af dagskrá Listahátíðar 2006 og var til sýnis á tveimur stöðum, í Þjóðminjasafninu og Borgarbókasafni Reykjavíkur. Í Þjóðminjasafninu voru listaverk nemenda Austurbæjarskóla sýnd á Torginu meðan verk Bryndísar og Marks eru á Veggnum á jarðhæð safnsins. Í Borgarbókasafni á Reykjavíkurtorgi verða ljósmyndir Bryndísar og Marks ásamt ritgerðum nemenda Austurbæjarskóla. Ennfremur lánaði Þorfinnur Guðnason mynd sína Hagamúsin með lífið í lúkunum, sem sýnd var á skjánum í Reykjavíkurtorgi meðan á sýningu stóð. Þó sýningarnar hafi verið á tveimur stöðum er ekki um sömu verk að ræða. Báðar sýningar takast á við sama viðfangsefni en nálgast það á mismunandi hátt. Listamennirnir hafa lagt sig fram við að tengja sýningarnar eins mikið og hægt er því samhengi sem þær eru sýndar í.

Bókin flug(a) - milli náttúru og menningar sem inniheldur fjölda ljósmynda ásamt skrifum sérfróðra manna um verkið og efnistökin fylgdi sýningunni.