Eldri sýningar

Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen

  • 13.6.2019 - 25.4.2021, 10:00 - 17:00, Safnahúsið við Hverfisgötu

Einn af kjörgripum Listasafns Íslands er höggmyndin Ganýmedes eftir Bertel Thorvaldsen (1770–1844). Thorvaldsen, sem var af íslenskum ættum, var einn þekktasti listamaður Evrópu um sína daga og talinn einn helsti fulltrúi nýklassíska stílsins í höggmyndalist. Frummyndina að Ganýmedes gerði Thorvaldsen í Róm árið 1804 og er marmaramyndin sem nú er sýnd í Safnahúsinu meðal elstu verka í safneign Listasafns Íslands og eina höggmyndin sem safnið á eftir Thorvaldsen. 

Eins og í mörgum verka sinna sækir Thorvaldsen innblástur til klassískrar myndlistar Forn-Grikkja bæði hvað varðar myndefni og útfærslu en samkvæmt grískri goðafræði veitti Seifur Tróverjanum Ganýmedes eilífa æsku og býr hann hjá guðunum á Ólympsfjalli og skenkir þeim vín.

Í Reykjavík eru þrjár bronsafsteypur af verkum Thorvaldsens í almannarými auk þess sem þrjú verka Thorvaldsens höggvin í marmara eru í opinberri eigu, Ganýmedes þar á meðal. Í kirkjugörðum landsins má sjá lágmyndir Thorvaldsens á fjölmörgum legsteinum og í söfnum landsins eru varðveittar ýmsar eftirgerðir af vinsælustu verkum hans. Nálgast má upplýsingar um verk Bertels Thorvaldsens í íslenskum söfnum á vefnum sarpur.is.