Handaverk frú Magneu Þorkelsdóttur
Magnea fæddist 1. mars 1911 í Reykjavík. Þegar Magnea var á barnsaldri kynntist hún nágrannakonu sinni en af henni nam hún fyrstu nálarsporin aðeins fimm ára að aldri. Magnea gekk í Miðbæjarskólann og síðan í Kvennaskólann í Reykjavík. Hún var afburðanemandi og hlaut verðlaun við útskrift bæði fyrir verkkunnáttu og bóklegar greinar. Hæfileikar hennar nýttust er hún réðst ung stúlka til vinnu á saumastofunni Dyngju í Reykjavík. Þar vann hún við að baldera og sauma þjóðbúninga m.a. skautbúninga fyrir Alþingishátíðina 1930. Þótt Magnea hafi verið jafnvíg á bóknám og verknám stóð hugur hennar alltaf til hannyrða sem hún vann af ástríðu og einstöku listfengi alla tíð.
Þann 22. ágúst 1933 giftist hún Sigurbirni Einarssyni síðar biskupi. Þau hjónin eignuðust átta börn. Magnea tók alla tíð virkan þátt í starfi eiginmanns síns fyrst á Breiðabólsstað á Skógarströnd og síðar í hinni nýju Hallgrímssókn í Reykjavík. Á Breiðabólsstað reyndi fyrst á hlutskipti Magneu sem prestsfrúar. Við frumstæð skilyrði án rennandi vatns með ört stækkandi barnahóp framreiddi hún messukaffi eftir hverja guðsþjónustu. Þar var einnig gestkvæmt því símstöð sveitarinnar var á prestssetrinu. Þá var Magnea organisti á Breiðabólsstað.
Annríkið á heimilinu varð ekki minna eftir að fjölskyldan flutti suður. Á heimilinu var jafnframt skrifstofa Sigurbjörns þar sem hann tók á móti sóknarbörnum og sinnti ritstörfum. Þó að Sigurbjörn tæki við háskólakennslu 1944 vann hann oft prestsverk og í stofunni smáu fóru fram brúðkaup og skírnir þar sem Magnea spilaði undir á orgel og síðar píanó því engin var kirkja þessa unga safnaðar. Með hannyrðum sínum lagði hún kirkjubyggingu Hallgrímssafnaðar lið og gaf útsaumaða dúka sína árum saman á kirkjubasar í fjáröflunarskyni.
Samhliða sýningunni kemur út bók með sýnishornum af þeirri fjölbreyttu handavinnu sem Magnea saumaði sér og afkomendum sínum.