Huldukonur í íslenskri myndlist
Sýningin Huldukonur í íslenskri myndlist var ásamt samnefndri bók afrakstur 25 ára rannsóknarvinnu Hrafnhildar Schram. Sýningin fjallaði um ævi og verk tíu kvenna sem voru nær allar fæddar á síðari hluta 19. aldar.
Aðeins tvær þessara kvenna sýndu myndverk sín opinberlega í lifanda lífi. Vegna þess hversu ósýnilegar þær hafa verið löndum sínum kaus Hrafnhildur að kalla þær huldukonur.
Þær listakonur sem fjallað var um á sýningunni nutu þeirra forréttinda að nema myndlist erlendis á síðustu áratugum 19. aldar og upp úr aldamótum. En engin þeirra gerði myndlist að ævistarfi eða átti sér sjálfstæðan og óslitinn listferil eftir að þær sneru heim.
Framlag þeirra er engu að síður hluti íslenskrar menningar og kvennasögu ekki síður en listasögu. Þær ruddu brautina fyrir aðra sem á eftir komu og eiga skilið sinn sess í sögu íslenskrar myndlistar.
Allar tilheyrðu þær efri stétt þjóðfélagsins, voru dætur embættismanna, kaupmanna og efnaðri bænda og nutu í námi stuðnings fjölskyldna sinna.
Á sýningu Þjóðminjasafns Íslands var leitast við að svipta hulunni af þessum konum. Lítið hefur sést af verkum þeirra opinberlega enda eru þau að mestu í eigu ættingja og afkomenda sem af miklu örlæti opnuðu sýningarhöfundi einkasöfn sín til rannsóknar og góðfúslega lánuðu þau á sýninguna.