Hvar, hver, hvað?
Á sýningunni er óþekkt myndefni úr Ljósmyndasafni Íslands og vonast er til þess að safngestir geti gefið upplýsingar um það. Sýningar af þessu tagi eru nefndar greiningarsýningar og eru eins konar gestaþrautir og hafa þær skilað góðum árangri.
Þjóðminjasafn Íslands er þakklátt fyrir alla aðstoð við að greina myndirnar.
Þegar filmusöfn ljósmyndara rata inn á söfn kemur oft í ljós að að myndefnið hefur ekki verið skráð og því ekki ljóst hvar og hvenær myndir voru teknar eða hver og hvað er á þeim. Til að mynd nýtist sem best þarf að setja hana í sögulegt samhengi, greina staðsetningu hennar í tíma og rúmi. Slík þekking stóreykur nýtingarmöguleika mynda.
Þjóðminjasafnið hefur nokkrum sinnum leitað til gesta og beðið um aðstoð þeirra við að skoða óþekktar ljósmyndir og veita upplýsingar um þær. Að þessu sinni eru myndirnar úr ljósmyndasöfnum Guðna Þórðarsonar blaðaljósmyndara, Halldórs E. Arnórssonar ljósmyndara og Tryggva Samúelssonar áhugaljósmyndara. Auk þess eru myndir úr filmusafni Jóhannesar Nielsen sýndar en hluti myndanna var tekinn af Karli Chr. Nielsen ljósmyndara.