Eldri sýningar

I Ein/ Einn

Ljósmyndir Valdimars Thorlaciusar

  • 6.6.2015 - 31.12.2015, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
  • I Ein/Einn

Á sýningunni eru ljósmyndir af íslenskum einförum og vistarverum þeirra. Sumir hafa orðið eftir á æskuslóðum en aðrir leitað í einveru, einhverjir búa í sveit en aðrir í þéttbýli en á myndunum er skyggnst inn í líf einfaranna.

Sýningin er fyrsta einkasýning ljósmyndarans Valdimars Thorlacius, en útskriftarverkefni hans úr Ljósmyndaskólanum árið 2014 voru heimildaljósmyndir af íslenskum einförum.

Á sýningunni eru myndir af einförum – sumir hafa orðið eftir, aðrir hafa leitað í einveru – og litast er um í söguheimum þeirra í gegnum ljósmyndir Valdimars. Sýningin er því nokkurskonar mynd af íslenskum veruleika; líf til sveita og bæja, opið land og fjöll, hagar og haf, fé og hundar, smalar og smiðir. Sumir einbúanna eru að dytta að amboðum, hjá öðrum er búið að fella skepnurnar og útihúsin eru aflögð, en það þarf að huga að kyndingu, hlusta á veðurfregnir, lesa blöðin, blunda yfir sjónvarpsfréttum. Tíminn líður hægt í þessum heimi, í raun er ljósmyndarinn búinn að frysta hann fyrir okkur.

I Ein/Einn

„Það er sagt að hann hafi bara lagst útaf þar við þennan stein og orðið bráðkvaddur, þessi steinn er þarna ennþá . . . hann hefur aldrei verið tekinn útaf þessu,“ segir einn einfaranna ljósmyndaranum. Þannig er þessi heimur sem birtist í myndunum, staðir sem hafa fengið að standa, hlutir sem ekki hefur verið haggað við, og allir virðast þeir eiga sér sögu. Rétt eins og fólkið sem þar býr. Einbúarnir eru sögumennirnir, og ljósmyndarinn segir okkur sögur af heiminum sem þau byggja. Heiminum þeirra. Myndirnar eru án titils því það er þessi sérstaki heimur einfarans sem er megin viðfangsefni ljósmyndarans en ekki einstaklingarnir sjálfir. Crymogea gefur út bók um ljósmyndaverkefnið I (Ein / Einn).