Eldri sýningar

Í Vesturheimi 1955. Ljósmyndir Guðna Þórðarsonar.

  • 12.3.2005 - 5.6.2005, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Í Vesturheimi 1955 er heiti á ljósmyndasýningu sem var helguð ljósmyndum Guðna Þórðarsonar blaðamanns og ljósmyndara. Guðni ferðaðist um byggðir Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum sumarið 1955 með tilstyrk Alþingis og tók ljósmyndir og kvikmyndir. Hann fór víða um og sótti heim fjölmörg byggðarlög, en myndaði eðlilega mest þar sem Vestur-Íslendingar voru fjölmennastir, eins og á Washington eyju í Michiganvatni, í Minnesota, Norður-Dakota og Nýja Íslandi.

ÍMegintilgangur Guðna var að fanga og bregða upp mynd af lífsháttum Vestur-Íslendinga og samfélagi þeirra. Í leit að myndefni var Guðni eðlilega líka að leita að samhljómi við Ísland og Íslendinga hjá þessu dreifða þjóðarbroti Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku. Myndefnið er fjölbreytt; þekktir Vestur-Íslendingar; íslensk heiti á skiltum, legsteinum, húsum og póstkössum; kirkjur íslenskra söfnuða og íslensk elliheimili og heimilsmenn þar; Vestur-Íslendingar að störfum við landbúnað; byggðirnar og landslagið.

Guðni hafði lært ljósmyndafréttamennsku hjá Time/Life í New York og var undir áhrifum af þeim straumum mannúðar sem einkenndu ljósmyndun eftirstríðsáranna. Hann var brautryðjandi í ljósmyndafrásögnum þar sem röð ljósmynda mynduðu uppistöðu frásagnarinnar og ritmálið spannst úr frá þeim.

Á sýningunni, Í Vesturheimi 1955, mátti sjá úrval mynda úr ferð Guðna og voru það nýjar stækkanir gerðar af Ívari Brynjólfssyni ljósmyndara Þjóðminjasafnsins.