Eldri sýningar

Ísland

  • 16.6.2006 - 24.9.2006, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýningin Ísland var helguð ólíkri sýn tveggja Evrópubúa á landið. Sumarið 1938 ferðuðust þjóðverjinn Alfred Ehrhardt og Englendingurinn Mark Watson um Ísland. Báðir komu til að sjá og upplifa náttúru landsins en tilgangur þeirra var þó ólíkur. Watson hafði dreymt um að sjá landið frá bernsku og ljósmyndir hans eru í anda almennra ferðamynda. Eins og myndirnar vitna um var hann mjög liðtækur ljósmyndari.

Watson myndar ekki bara landslagið heldur ferðalagið sjálft, torfbæi, hesta og fólkið í landinu. Ehrhardt nálgast landið á allt annan hátt. Hann lagði leið sína til Íslands gagngert til að ljósmynda form landsins og frumkrafta jarðarinnar eins og þeir endurspeglast til dæmis í hraunmyndunum og hverahrúðri. Hann var myndlistarmaður sem þegar hafði skapað sér nafn. Ljósmyndir hans eru persónuleg túlkun á umhverfinu og nærmyndir af áferð og mynstri sem í því birtist.

Myndir þeirra Ehrhardts og Watsons eru vitnisburður um hvað ljósmyndin getur verið persónulegt og margrætt tjáningarform. Sýn og túlkun tveggja einstaklinga á sama tíma þarf ekki að eiga neitt sameiginlegt nema miðilinn. Ísland árið 1938 lifir á ólíkan hátt í myndum þessara tveggja ljósmyndara.

Mark Watson (1906-1979)

Mark Watson (1906-1979) var Íslandsvinur á tímum þegar orðið hafði raunverulegt inntak. Hann var af enskri yfirstétt og stundaði nám við Eton og síðar skóla á meginlandi Evrópu.

Íslandsáhugi Marks mun hafa kviknað meðan hann var barn að aldri og viðhélst alla tíð. Rúmlega þrítugur kom hann fyrst til Íslands og ferðaðist sumarið 1937 á hestum um Þingeyjarsýslur. Ári síðar kom hann aftur og ferðaðist þá um Skaftafellssýslur og einnig Skagafjörð. Hann upptendraðist af bænum í Glaumbæ og staðnum og vildi kaupa hann, endurreisa og gera að safni. Um haustið sendi Mark 200 pund til Íslands til að hefja viðgerð bæjarins. Gjöf Marks skipti sköpum um varðveislu bæjarins í Glaumbæ.

Mark tók ljósmyndir í þessum fyrstu Íslandsferðum. Hann hélt sýningu á úrvali mynda úr sinni fyrstu Íslandsferð í London að viðstöddum Friðrik Danaprins og Ingiríði krónprinsessu. Eftir þetta lagði hann að mestu niður ljósmyndun.

Mark varð einn mesti velgjörðarmaður Þjóðminjasafns Íslands. Hann gaf safninu fjölda vatnslitamynda breska málarans W. G. Collingwood úr Íslandsferð hans árið 1897 og nokkrar myndir úr leiðangri Stanleys 1789 auk ýmissa annarra gjafa eins og þeirra ljósmynda sem getur að líta á sýningunni í Myndasalnum. Mark Watson var velgjörðarmaður Íslendinga á mörgum öðrum sviðum.

Þjóðminjasafn Íslands stendur í þakkarskuld við Mark Watson og minnist hans með virðingu og þökk á aldarafmæli hans.

Alfreds Ehrhardts (1901-1984)

Ehrhardt var einn fjölmargra Þjóðverja sem heimsóttu Ísland á millistríðsárunum. Hann hafði numið við Bauhaus-listaskólann og starfaði við kennslu í listgreinum. Fyrir Íslandsheimsóknina hafði hann gefið út tvær ljósmyndabækur. Önnur þeirra Das Watt er talin með merkari ljósmyndabókum tímabilsins.

Myndir Ehrhardts voru frumlegar á sínum tíma en virðast kannski næsta hversdagslegar núna. Ástæðan er þó ekki síst að enn í dag eru margir ljósmyndarar að mynda landið með líkum hætti og hann fyrir tæpum 70 árum.Áhrif Ehrhardts og stefnu hans í ljósmyndun hafa sannarlega verið lífsseig.

Afrakstur Íslandsferðarinnar gaf Ehrhardt út í bókinni Island árið 1939. Myndirnar í henni sýndu nýstárlega nálgun á myndefninu. Framlag Ehrhardts til íslenskrar ljósmyndunar byggir einkum á þrennu: 1. Nærmyndum af náttúrulegum mynstrum eða áferð í landslagi þar sem bútur úr landslagi er tekinn úr samhengi við umhverfið. Eftir stendur sléttur flötur með mynstri. 2. Djarfari myndskurði en áður hafði tíðkast, til dæmis á fossamyndum. 3. Öðru vísi landslagsmyndum með berangurslegum melum eða frostmynduðu þýfi.