Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur
Eftir nærri tveggja áratuga vinnu við rannsóknir og útgáfu bókaflokksins Kirkjur Íslands, efnir Þjóðminjasafn Íslands til sýningarinnar Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist yfir kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfuna.
Á sýningunni eru sýndir gripir úr kirkjum landsins og úr safneigninni sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir. Gripir munu kallast á við það sem enn er í kirkjunum auk þess sem skírskotað er til gripa á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, þar sem helstu gersemar safnsins eru.
Kirkjur á Íslandi voru öldum saman ígildi listasafna samtímans. Kirkjur létu vinna fyrir sig listaverk eða keyptu þau frá erlendum framleiðendum og einnig innlendum. Verslunarsaga landsins endurspeglast í varðveittum kirkjugripum. Aldur gripanna er breytilegur og þeir endurspegla smekk og fagurfræði hvers tíma. Fjölbreytni, listrænt og menningarsögulegt mikilvægi þeirra hefur orðið ljósara eftir því sem bókum í flokknum hefur fjölgað. Mikið er um vandaða heimagerða gripi sem veita innsýn í alþýðulist fyrri tíma.
Á sýningunni í Bogasal er fjallað um fjölbreytni og stíl kirkjugripa og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í alþjóðlegu samhengi listasögunnar. Sýningin opnar fyrir framtíðarrannsóknir í listasögu á Íslandi.
Hátíðarsýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands.
Sýningin er styrkt af Afmælisnefnd um 100 ára fullveldi Íslands.