Eldri sýningar

Konunglegar mublur - minningargjöf um hjónin Poul Reumert og Önnu Borg

  • 5.11.2004 - 31.12.2004, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Sýningin Konunglegar mublur var samstarfsverkefni Leikminjasafns Íslands og Þjóðminjasafnsins. Meginuppistaða sýningarinnar voru glæsihúsgögn, sófi og sex stólar, sem lengi stóðu í búningsherbergi Pouls Reumert í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Húsgögnin eru sögð persónuleg gjöf til leikarans frá vini hans Friðriki IX Danakonungi. Hér er því um einstaka muni að ræða.

Reumert, sem var einn mesti leikari Dana á síðustu öld, var kvæntur íslenskri konu, Önnu Borg. Hún var einnig leikkona við Konunglega leikhúsið í áratugi. Anna var dóttir Stefaníu Guðmundsdóttur, fremstu leikkonu Íslendinga á fyrri hluta síðustu aldar. Anna fórst í flugslysi við Fornebu-flugvöll í Osló árið 1963 og átti þá að baki merkan listferil í dönsku leikhúsi.

Reumerts-hjónin höfðu jafnan mikið samband við Ísland, komu hingað oft og léku gestaleiki sem vöktu mikla athygli. Auk þess voru þau jafnan boðin og búin að greiða götu íslenskra listamanna í Kaupmannahöfn. Húsgögnin eru því minjar um einn af merkustu þáttum íslenskrar leiklistarsögu og mikill ávinningur fyrir Leikminjasafnið að hafa eignast þau.

Það var Geir Borg, bróðir Önnu Borg, sem keypti húsgögnin eftir lát Reumerts 1968. Geir lést veturinn 2004 ? og eru þau gefin Leikminjasafninu af börnum hans. Gjöfinni fylgdi mikið safn margvíslegra gagna um listferil hjónanna og Stefaníu Guðmundsdóttur.