Eldri sýningar

Leiðin á milli

  • 19.5.2007 - 30.9.2007, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Til sýnis voru frumleg listaverk þriggja listamanna sem kenna sig við Andrá og vinna með menningararfinn. Þetta eru þær Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir og Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá.

Á sýningunni Leiðinni á milli sóttu listakonurnar innblástur í muni úr Þjóðminjasafninu. Fyrir sýninguna hélt Andrárhópurinn meðal annars í könnunarleiðangur um geymslur safnsins og naut leiðsagnar sérfræðinga.

Á sýningunni voru þrjár innsetningar, Hringhenda , Aðdráttarafl og Gestrisni. Ný verk voru sett í samhengi við gömul og þjóðminjar þannig sýnd í nýju ljósi. Leiðin lá milli staða, milli einstaklinga, milli fortíðar og líðandi stundar, listtjáningar fyrr og nú, menningararfsins sem geymdur er í Þjóðminjasafninu og listrænnar endursköpunar hans. Oddný Eir Ævarsdóttir sýningarstjóri sagði: ,,Einkennandi fyrir allar þessar leiðir er ákveðin togstreita og úr henni má lesa þrá eftir hreyfingu. Stundum í hring, örlítið skakkan, þráhyggjulega endurtekinn eða leikandi hraðan út fyrir túngarða og mörk tímans.”

Myndlistarkonurnar þrjár tjáðu hugmyndina um leiðina hver á sinn hátt en leiðir þeirra í tjáningunni fléttuðust líka saman. Sýninguna mátti skoða sem stefnumót þeirra við listamenn fyrri alda, skáldin og ferðalangana Látra-Björgu, Bólu-Hjálmar Jónsson og Jónas Hallgrímsson. Á ferðalögum sínum komu þau þrjú víða við sem gestir og þökkuðu fyrir sig með orðum, ljóðum, listaverkum og uppfinningum. Þeim var einnig boðið á sýninguna í Bogasalnum þar sem myndlistarkonurnar þrjár voru gestgjafar.

Guðrún, Kristín og Guðbjörg Lind gerðu ekki fræðilega úttekt á listamönnum fortíðarinnar heldur nálguðust þá gegnum sköpun, bæði þeirra sköpun og sína eigin, og einnig gegnum persónulega muni. Guðrúnu opnaðist sýn inn í kveðskaparheim Bólu-Hjálmars gegnum fagurlega útskorinn skáp hans sem nú er í eigu Þjóðminjasafnsins og Kristín náði sambandi við Jónas Hallgrímsson með því að draga rauða skrifborðið hans fram úr safngeymslu. Kaffibollar mynda tengingu Guðbjargar Lindar við förukonuna Látra-Björgu sem yfirgaf eldhússtörfin.

Myndlistarmennirnir sáu fyrir sér leiðir þessara þriggja listamanna fyrri alda, leiðir sem lágu að krossgötum á sýningunni í Bogasalnum. Eftir þessum leiðum komu ferðalangarnir.

Mikilvægt er að menningarminjum eins og þeim sem geymdar eru í Þjóðminjasafni Íslands sé miðlað til umheimsins og það má gera á marga vegu. Ein miðlunarleiðin felst í listrænni endursköpun eins og þeirri sem sjá má hjá Andrárhópnum. Í meðförum myndlistarmannanna var menningararfurinn settur í annað samhengi en áður og gegnum það fékk hann nýtt og óvænt líf. Sýningin í Bogasalnum var óður til þeirrar brotakenndu arfleifðar sem varðveist hefur í Þjóðminjasafninu og öðrum söfnum. Kristín, Guðrún og Guðbjörg Lind raða brotum fortíðarinnar saman gegnum listræna skynjun og listsköpun.