Eldri sýningar

Lítil

  • 24.10.2015 - 22.11.2015, 15:00 - 17:00
  • klaki

Sýningin Lítil er nokkurskonar ástarjátning til fegurðarinnar sem býr í hinu smáa. Að verkinu standa listamennirnir Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.

 Kveikjan er saga Ólafar eskimóa, Sölvadóttur sem fæddist árið 1858 í Húnavatnssýslu. Hún var bláfátæk, dvergvaxin og flutti ung að árum til Vesturheims þar sem hún öðlaðist frægð sem fyrirlesarinn Olof Krarer á þeim forsendum að hún væri "eskimói" frá Grænlandi.

Verkið er fyrsta samstarfsverkefni listamannanna en þær takast á við brothætta en jafnframt kraftmikla ævisögu Ólafar eskimóa með orðum, tónum og fínofnu silki. Í tengslum við sýninguna verður fluttur gjörningur í lestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu laugardaginn 31. október klukkan 15. Í gjörningnum takast listamennirnir á við eigin upplifun af smæð sinni gagnvart heiminum, hávöxnu fólki og náttúrunni, og flétta saman sögu Ólafar eskimóa við tónlist, ljóð og heimskautabirtu. Tónlistarfólk verksins eru þau Marteinn Sindri Jónsson og Vala Höskuldsdóttir, en Bjarni Jónsson sér um dramatúrgíu. Kvæði nöfnu Ólafar og samtíðarkonu, Ólafar frá Hlöðum,  Lítil, er eins konar leiðarstef verksins.

Reykjavíkurborg styrkir verkefnið.