Eldri sýningar

Ljósmyndir Emils Edgrens

  • 23.9.2011 - 23.10.2011, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Emil Edgren (f. 1919) var hermaður og ljósmyndari fyrir kvikmyndaþjónustu bandaríska hersins í Evrópu. Í seinni heimstyrjöld var hann m.a. sendur til Íslands, en þar eyddi hann frístundum sínum í að ljósmynda mannlíf og umhverfi í Reykjavík og nágrenni.

Emil Edgren var ljósmyndari hjá Bandaríkjaher í seinni heimsstyrjöld. Þar tók hann m.a. myndir af Elísabetu II, Bretadrottningu, Dwight D. Eisenhower hershöfðingja og öðrum háttsettum mönnum og almennum borgurum.

Emil Edgren fæddist 1919 í San Fransisco í Bandaríkjunum. Hann gekk í herinn árið 1940, aðeins nokkrum mánuðum áður en árásin á Pearl Harbor átti sér stað og breytti gangi stríðsins. Áður en hann vissi af var Emil kominn til Íslands, 6800 kílómetra að heiman. Hann dvaldi á landinu í eitt og hálft ár, heillaðist af landi og þjóð og notaði þau tækifæri sem hann fékk til að fara af herstöðinni til að ljósmynda höfuðstaðinn, þorp og víðáttur Íslands. Úrval úr Íslandsmyndum hans er nú komið út hjá Máli og menningu í bókinni Dagbók frá veröld sem var.

Að herþjónustu lokinni rak Emil ljósmyndastofu í San Fransisco. Síðar meir gekk hann til liðs við International News Photos og starfaði á San Francisco Call, Bulletin og Examiner. Hann vann verkefni fyrir Associated Press og United Press International. Emil Edgren hefur unnið til fjölda verðlauna og ljósmyndir hans af vígvellinum hafa birst í Life og öðrum tímaritum. Hann er nú hættur störfum og býr með eiginkonu sinni Lucille í Capitola í Kaliforníu.