Eldri sýningar

Með silfurbjarta nál í ævintýraskógi Rousseau

  • 29.3.2007 - 29.4.2007, Þjóðminjasafnið á Suðurgötu

Í tengslum við textílsýninguna Með silfurbjarta nál - spor miðalda í íslenskum myndsaumi í Bogasalnum var haldin sýningin Með silfurbjarta nál í ævintýraskógi Rousseau á Torginu. Á sýningunni voru verk nemenda í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ungu listamennirnir sóttu innblástur sinn í sýningu Þjóðminjasafnins. Nemendur skoðuðu textílsýninguna í Bogasalnum í fylgd kennara, könnuðu hinar mismunandi útsaumsaðferðir sem beitt hefur verið við sköpun verkanna og ræddu uppruna myndefnis. Í kjölfarið unnu þeir útsaumsverk og teikningar.

Kennarar Myndlistaskólans kynntu fyrir nemendum sínum þau efni sem notuð hafa verið í gegnum tíðina við útsaum á Íslandi og þá sérstaklega jurtalitað band. Nemendurnir gerðu síðan tilraunir til þess að lita band með ýmsum efnum úr sínu umhverfi og má til dæmis sjá band litað með Pepsi Max og appelsínusafa á sýningunni.

Þetta var í annað sinn sem afrakstur nemenda barna- og unglingadeildar skólans var sýndur á Torgi Þjóðminjasafnsins. Í janúar árið 2006 unnu nemendur út frá kveikjunni Söfn og Safnarar og kenndi þar ýmissa grasa. Veigamikill þáttur námi í Myndlistaskólanum er að viða að sér áhugaverðum hugmyndum og er þá listasagan skoðuð og farið á listasöfn. Fastur liður eru rannsóknarleiðangrar á Þjóðminjasafnið.

Myndlistaskólinn í Reykjavík er sjálfseignarstofnun sem rekin hefur verið af myndlistamönnum síðan hann var stofnaður árið 1947. Skólinn hefur því starfað í 60 ár og heldur upp á afmæli sitt um þessar mundir. Myndlistarkennsla barna hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfi skólans. Á hverju ári eru um 400 nemendur í námi, bæði fullu námi og á námskeiðum. Nemendur eru á aldrinum 3ja til 80 ára.

Í þessu fjölbreytta umhverfi skapast deigla sem er einstök og eftirsóknarverð. Í gegnum árin hefur Myndlistaskólinn átt gott samstarf við fjölda stofnana, leikskóla, grunnskóla, Listasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafn Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands svo fátt eitt sé nefnt.