Eldri sýningar

Myndir úr lífi mínu

  • 30.9.2006 - 26.11.2006, Veggur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Myndir úr lífi mínu nefndist sýning á ljósmyndum Gunnlaugs P. Kristinssonar (1929-2006). Gunnlaugur var virkur áhugaljósmyndari á Akureyri upp úr miðri 20. öld. Hann tók myndir af samfélaginu sem hann lifði og starfaði í, umhverfinu, viðburðunum og hversdagsleikanum heima og heiman. Gunnlaugur var starfsmaður KEA (Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri) og því oft á vettvangi atburða þar sem hann gat myndað í leiðinni. Gunnlaugur veitti samtímamönnum sínum hlutdeild í þessum myndum með því að birta þær í bæjarblöðum og margs konar útgáfu á vegum KEA.

Guðmundur var auk þess fréttaritari sjónvarpsins á Akureyri um fjórtán ára skeið og birtust þá svarthvítar myndir hans í fréttum. Gunnlaugur byrjaði að þreifa fyrir sér í myndatökum á vél mömmu sinnar og varð fljótlega einn helsti áhugaljósmyndari bæjarins, sjálfmenntaður en vandvirkur, ekki bara við myndatökur og myndvinnslu heldur líka við skráningu og frágang á safni sínu.

Á sýningunni var brugðið upp skemmtilegum myndum úr bæjarlífinu í höfuðstað Norðurlands. Í huganum geta þeir sem muna þessi ár horfið aftur til þess tíma og rifjað upp með sjálfum sér fötin, bílana, húsbúnaðinn, vöruvalið og uppstillingarnar og jafnvel fundið lykt liðins tíma. Hinir fá tækifæri til að sjá hvernig veröldin var á Akureyri og annars staðar á Íslandi þegar mjólk var seld í brúsum, bítlarnir áttu sér eftirmyndir í unglingahljómsveitum um allan heim og Akureyri var iðnaðarbær landsins. Sýningin kom frá Minjasafninu á Akureyri en þar er ljósmyndasafn Gunnlaugs P. Kristinssonar varðveitt.