Eldri sýningar

Ómur. Landið og þjóðin í íslenskri hönnun

  • 29.1.2005 - 1.5.2005, Bogasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Getur þjóðarsálin búið í klakaboxi, á snaga eða í gallabuxum?

Þessum spurningum og fleiri var velt upp á sýningu Þjóðminjasafnsins, Ómur - Landið og þjóðin í íslenskri hönnun, sem opnuð var í Bogasalnum snemma árs 2005. Sýningin var ein sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Sýnd voru verk 42 hönnuða sem sýningarhöfundarnir Páll Hjaltason arkitekt og Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður völdu eftir sex flokkum: snjórinn, sauðkindin, sjórinn, þjóðbúningurinn, hraunið og þjóðlegt. Verkin á sýningunni spönnuðu allt frá arkitektúr til skartgripa og leitast var við að sýna hvernig íslensk hönnun byggir á grunni arfleifðar og lands en er útfærð, endurnýjuð og aðlöguð nýjum aðstæðum og þörfum samtímans.

Frú Dorrit Moussaieff opnaði sýninguna og Valgerður Sverrisdóttir ávarpaði gesti.

 

Texti úr sýningaskrá

“Guð býr í gaddavírnum amma.” Megas

Getur þjóðarsálin búið í klakaboxi, á snaga eða í gallabuxum? Spurningin virðist ófyrirleitin, en ef við stöldrum aðeins við stinga aðrar spurningar upp kollinum. Hvað er þjóðarsál? Hver eru sameiningartákn þjóðar? Hvernig birtist arfðleifðin?

Íslensk hönnun er ung iðngrein ungrar þjóðar með ríka sögu. Því má bæta við að landslag er sérstætt, veðurfar dyntótt og auðlindir lengst af einhæfar. Þróunin úr landbúnaði í iðnvæðingu, úr sveit og sjávarplássum í borg var svo ör að fólk sem elst nú upp á tölvuöld og í alþjóðlegu net- og neyslumynstri man á einhvern óljósan hátt eftir skautbúningum, fiskihjöllum og fjármörkum. Tilfinningin fyrir efninu er enn til staðar: útskorið silfur, þæfð ull, íshröngl, mjúkt þang, úfið hraun...

Íslenskir hönnuðir í dag eru virkir íbúar heimsþorpsins og um leið er ómurinn af arfleifðinni til staðar í verkum margra þeirra, hann laumast inn í hátæknileg efni, birtist í staðbundnum viðfangsefnum og formum eða í hefbundnum efniviði. Meira að segja þjóðartákn eins og fáninn eða krónan hasla sér nýjan völl á ólíklegustu stöðum. Þessi þróun virðist hafa færst í vöxt undanfarin ár. Kannski er þörfin fyrir skilning á eigin fortíð, sérkennum og sögu einmitt brýnni á tímum vaxandi hnattvæðingar. Þar að auki á iðnhönnun hér á landi sér hvorki hefð né skráða sögu, það fellur því í hlut listamannanna að skapa þessa hefð.

Hlutirnir sem hér eru sýndir byggja á grunni arfleifðar og lands. Þetta er grunnurinn eða ómurinn sem er síðan endurnýjaður, útfærður og aðlagaður nýjum þörfum og aðstæðum. Þannig verður nýtni að leikfangi, nauðsyn að munaðarvöru og hið heilaga öðlast líf.

                                                                                                                                                    Ásdís Ólafsdóttir