Eldri sýningar

Portrett Kaldals

  • 24.9.2016 - 5.2.2017, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu
  • Síra Arnór Árnason

Jón Kaldal (1896-1981) varð þjóðfrægur ljósmyndari þegar í lifanda lífi. Þar réðu mestu einstakar portrettmyndir hans af listamönnum og framámönnum meðal þjóðarinnar. Slík var staða Kaldals að það varð þeim sem vildu teljast menn með mönnum kappsmál að sitja fyrir á ljósmynd hjá honum.

120 ár eru nú frá fæðingu Jóns Kaldals og er þess minnst með tveimur sýningum á ljósmyndum hans í Þjóðminjasafni Íslands. Portrett Kaldals er helguð sígildum portrettmyndum hans, sem fyrst voru sýndar árið 1966 og aftur árið 1996. Þær myndir hafa tvívegis verið gefnar út á bók. Úrvalið var upphaflega valið af Jóni sjálfum og þetta eru frummyndir unnar af honum með aðstoð konu hans Guðrúnar. Á sýningunni eru fjölmargar myndir sem hafa orðið þjóðþekktar og eru í raun orðnar samofnar ímynd okkar af viðkomandi einstaklingum eins og Ástu Sigurðardóttur skáldkonu, Steini Steinarr ljóðskáldi, Jóhannesi Kjarval listmálara eða Halldóri Laxness skáldi. Þó að myndirnar hafi oft birst á prenti í ýmsum ritum kemur það ekki í stað þess að sjá sjálfar frummyndirnar.  Hin sýningin Kaldal í tíma og rúmi sýnir úrval ljósmynda sem teknar eru innan dyra; á heimilum fólks, í heimavistarskólum eða á vinnustöðum á rúmum áratug frá 1926 til 1938.