Eldri sýningar

Rætur rúntsins. Ljósmyndir Rob Hornstra.

  • 5.3.2006 - 11.6.2006, Myndasalur - Þjóðminjasafnið Suðurgötu

Vorið 2006 gat að líta sýningu með ljósmyndum hollenska ljósmyndarans Rob Hornstra í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands. Sýningin bar heitið Rætur rúntsins og var afrakstur af ferðum Robs um Ísland árið 2005. Rob Hornstra var einn sex þátttakenda í evrópsku ljósmyndaverkefni á vegum International Photography Research Network við háskólann í Sunderland í Englandi, en Þjóðminjasafn Íslands var samstarfsaðili að verkefninu árið 2005.

Meginþema ljósmyndaverkefnisins var atvinna og þess vegna ákvað Rob að einbeita sér að starfsfólki í fiskiðnaði og ferðast um þorp landsins. Rúnturinn vakti sérstakan áhuga hans vegna þess að hann sýndi hvað ungt fólk í litlum þorpum gerir til að drepa tímann. Á sýningunni voru um 50 myndir sem veittu nýja og óvanalega sýn á Ísland samtímans.

Hægt er að kynna sér Rob Hornstra á veffanginu http://www.borotov.nl/ og bæði hann og Evrópuverkefnið í heild sinni á http://www.theiprn.org/index.php. Á seinna veffanginu er viðtal við Rob Hornstra tekið af Agnesi Matthias vegna samsýningar á ljósmyndum allra þátttakenda síðasta árs í Museum Folkwang í Essen í Þýskalandi.

Safnfræðslan setti fram hugmynd að verkefni fyrir 10. bekk grunnskóla og prentuð voru kort með myndum af sýningunni og spurningum til hugleiðingar aftan á.