Rósaleppaprjón í nýju ljósi
Á sýningunni Rósaleppaprjón í nýju ljósi mátti sjá prjónamynstur og verk eftir Hélène Magnússon. Sýningin byggði á rannsóknum á íleppum eða rósaleppum sem voru prjónuð innlegg í íslenska sauðskinnsskó eða roðskó til þæginda og skrauts. Hélène hefur út frá svo kölluðu rósaleppaprjóni hannað eigin prjónamynstur. Sýningin var haldinn í tilefni af útkomu samnefndrar bókar þar sem listakonan birti rannsóknir sínar og uppskriftir.
Hélène Magnússon er fædd í Frakklandi árið 1969. Hún lauk meistaraprófi í lögum og starfaði um skeið sem lögmaður í París en söðlaði um árið 1995 og flutti til Íslands þar sem hún hóf síðar myndlistar- og hönnunarnám. Hélène útskrifaðist frá textíl- og fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands árið 2004 og hefur tekið þátt í nokkrum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis. Hún starfar nú sjálfstætt sem hönnuður og sækir gjarnan innblástur í gamla íslenska handmennt sem hún túlkar af mikilli hollustu en þróar jafnframt á nýjan og ferskan hátt.
Salka gefur út bók Hélène en í henni rekur hún sögu hins forna íslenska rósaleppaprjóns og aðferðir við gerð íleppa. Bókin heldur til haga gamalli séríslenskri þekkingu sem nánast hefur glatast og gefur hugmyndir um hvernig má hagnýta hana við nútímahönnun. Eru því birtar í bókinni 27 nýstárlegar prjónauppskriftir. Við hönnun á flíkunum sem til sýnis eru í Þjóðminjasafninu hefur Hélène leitast við að vera trú upprunalegum litasamsetningum þeirra leppa sem hún hefur valið og gömlu aðferðunum við gerð þeirra. Ílepparnir koma þó fram í hinum nýju flíkum með ýmsum hætti. Í sumum tilvikum hefur hún endurtekið sama mynstrið nokkrum sinnum (þ.e. unnið upp úr íleppamynstrinu símynstur). Í öðrum tilvikum hefur hún látið mynstrið ráða formi flíkurinnar. Í enn öðrum uppskriftum lætur hún innblásturinn ráða hvernig mynstrin raðast.
Sjá nánar um Hélene Magnússon á slóðinniwww.helenemagnusson.com